Norski framherjinn Erling Braut Haaland er að tæta ensku úrvalsdeildina í sig á fyrsta tímabilinu með Manchester City en hann mun mæta gamla lærimeistara sínum er hann spilar við Leeds þann 28. desember.
Haaland skoraði 24. mark sitt á tímabilinu í 3-2 sigrinum á Liverpool í enska deildabikarnum en hann hefur heldur betur látið til sín taka á stuttum tíma.
Þann 28. desember heimsækir Manchester City lið Leeds og er það ansi sérstakur leikur fyrir Haaland sem er fæddur í borginni.
Alf-Inge Haaland, faðir Erling, spilaði með Leeds frá 1997 til 2000 á eiga þeir feðgar því sögu í borginni.
Marsch, sem þjálfaði Haaland hjá RB Salzburg, er í dag stjóri Leeds, en hann talaði aðeins um norska framherjann í viðtali fyrir leik þessara liða.
„Hann sendi mér skilaboð um leið og dagskráin var birt. Hann sagði að hann væri rosalega spenntur fyrir þessum leik og ég gaf honum leyfi að meiðast smávægilega aftan í læri fyrir leikinn!“ sagði Marsch í gríni.
„Hann er fæddur í Ledds og faðir hans á sögu hér. Þetta félag á sér stað í hjarta hans af þeirri ástæðu. Þegar ég fékk starfið þá fékk ég stuðning frá honum og föður hans. Ég býst við að hann verði klár í slaginn og það mun skapa vandamál fyrir okkur,“ sagði Marsch í lokin.
Athugasemdir