James Milner og Phil Jagielka á æfingu enska landsliðsins í Brasilíu. Með þeim á myndinni eru þeir Glen Johnson og Steven Gerrard.
James Milner, leikmaður Liverpool, sagði frá heldur óskemmtilegri lífsreynslu sem hann lenti í á HM í Brasilíu fyrir átta árum, en hann var viss um að hópur af mönnum ætlaði að ræna honum og varnarmanninum Phil Jagielka.
Milner og Jagielka voru báðir í landsliðshópnum sem fór til Brasilíu árið 2014.
Á milli leikja dreifðu leikmenn huganum og reyndu að sinna áhugamálum sínum. Milner, Jagielka og markvörðurinn Ben Foster, voru meðal þeirra sem fóru í golf.
Sú ferð hefði getað endað verr en hann taldi sig og Jagielka vera skotmörk mannræningja.
„Við ákváðum að taka eina umferð í golfi en vorum ekki alveg að hitta. Hópurinn þinn endaði fyrir framan okkur og það kom bíll að sækja ykkur en ég og Jags sögðumst ætla að klára síðustu tvær holurnar og koma til ykkar,“ sagði Milner í viðtali Ben Foster á Amazon Prime.
„Ég sagði við manninn að við myndum skilja golfbílinn eftir og labba bara til baka. Við löbbuðum út um hliðið og það lokaðist strax á eftir okkur. Við erum að rölta niður götuna er við snúum okkur við blasir við hópur af mönnum.“
„Við vorum að skima í kringum okkur og farnir að ganga aðeins hraðar og þeir gerðu það sömuleiðis. Þeir byrjuðu svo að skokka, þannig við settum í næsta gír og fórum að hlaupa og ég man að ég sagði við Jags að við værum í vandræðum. Við vorum hlaupandi og ég sagði við hann að við gætum stungið þá af.“
„Næsta sem gerist er að það kemur bíll upp að okkur og stoppar og þá hugsaði ég að nú væri verið að ræna okkur. Þetta er búið spil, en þegar hurðin opnaðist þá voru þetta öryggisverðirnir að öskra á okkur að drulla okkur inn í bíl, þannig við hoppuðum inn í hann á ferð og fórum aftur á hótelið,“ sagði Milner
Athugasemdir