Njörður Þórhallsson er mættur aftur heim í Þrótt R eftir að hafa spilað fyrir KV síðustu ár, en hann skrifaði undir tveggja ára samning við uppeldisfélagið í gær.
Njörður er 27 ára gamall og getur bæði spilað stöðu varnar- og miðjumanns.
Eins og áður segir er hann uppalinn í Þrótti en hann var lánaður í KV árið 2015 og gerði síðan skipti sín varanleg eftir tímabilið.
Hann hefur gengið í gegnum súrt og sætt með KV. Njörður hjálpaði liðinu að fara upp um tvær deildir á tveimur árum og spilaði liðið í Lengjudeildinni í sumar, en féll aftur niður í 2. deild.
Á þessum sjö árum spilaði hann 162 leiki og skoraði 17 mörk í deild- og bikar.
Njörður fór aftur í Þrótt fyrir þremur árum og spilaði með liðinu á undirbúningstímabilinu en skipti aftur yfir KV í byrjun móts.
Nú er hann kominn heim í Þrótt og skrifaði hann í gær undir tveggja ára samning við félagið.
Þróttur mun spila í Lengjudeildinni á næsta tímabili eftir að hafa lent í öðru sæti í 2. deildinni á nýafstaðinni leiktíð.
Athugasemdir