Hann segir að Erik ten Hag, stjóri Man Utd, líti á Marcus Rashford sem algjöran lykilmann fyrir framtíð félagsins. Ten Hag hefur miklar mætur á framherjanum knáa og vill að félagið semji við hann sem fyrst.
Rashford hefði runnið út á samningi næsta sumar en Man Utd virkjaði ákvæði í samningi hans sem gaf félaginu rétt á eins árs samningsframlengingu.
Ten Hag mætti á fréttamannafund í dag og var meðal annars spurður út í hægri bakvörðinn Aaron Wan-Bissaka sem hefur fengið afar lítinn spiltíma á fyrri hluta tímabils. Bakvörðurinn hefur verið orðaður við sölu frá félaginu en Ten Hag segir Wan-Bissaka geta átt framtíð hjá Man Utd.
„Wan-Bissaka getur átt framtíð hér. Hann hefur verið góður áður en á þessu tímabili hefur hann verið að glíma við mikið af meiðslum og veikindum. Hann hefur ekki verið í standi til að æfa almennilega með liðsfélögunum - hvað þá til að spila fótboltaleiki. Við erum að sjá stöðug batamerki hjá honum," sagði Ten Hag.
Wan-Bissaka átti flottan leik er Man Utd lagði Burnley að velli í 8-liða úrslitum deildabikarsins.