Julen Lopetegui, knattspyrnustjóri Wolves, er búinn að staðfesta yfirvofandi félagsskipti Matheus Cunha frá Atletico Madrid.
Skiptin munu ganga í gegn um áramótin og er Lopetegui gríðarlega spenntur fyrir sínum nýja leikmanni, enda hefur Úlfunum vantað sóknarmann heillengi.
„Þetta er allt klárt núna, hann er að bætast við leikmannahópinn. Þetta eru frábær kaup á flottum leikmanni sem er fullkominn fyrir ensku úrvalsdeildina," sagði Lopetegui á fréttamannafundi í dag.
Lopetegui var þá spurður út í áhuga Úlfanna á spænska miðjumanninum Isco sem er samningslaus eftir misheppnaða dvöl hjá Sevilla.
Lopetegui neitaði að tjá sig um Isco en þeir þekkjast afar vel eftir að hafa starfað saman hjá spænska landsliðinu, Real Madrid og nú síðast hjá Sevilla í haust.
Þjálfarinn var að lokum spurður út í framtíð Adama Traore, sem verður samningslaus næsta sumar.
„Ég er hrifinn af Adama og við viljum reyna að halda honum hjá félaginu. Ég veit ekki hvernig samningsviðræðurnar munu ganga en markmiðið er að halda honum."