Willum Þór Willumsson var í byrjunarliði Go Ahead Eagles í 7-4 tapi gegn Feyenoord í löngum æfingaleik í dag.
Æfingaleikurinn var spilaður á 150 mínútum, eða tveimur og hálfri klukkustund, og komst Feyenoord í 7-1 forystu eftir að hafa lent 0-1 undir snemma leiks.
G.A. Eagles klóruðu í bakkann með þremur mörkum á síðustu 25 mínútum viðureignarinnar en það dugði ekki til.
Feyenoord 7 - 4 G.A. Eagles
Lecce tapaði þá æfingaleik gegn Udinese en Þórir Jóhann Helgason var ekki í hóp.
Emil Hallfreðsson var heldur ekki í hóp er Virtus Verona gerði markalaust jafntefli við toppbaráttulið Lecco í C-deildinni.
Virtus er með 23 stig eftir 20 umferðir, fjórum stigum frá umspilsbaráttunni.
Udinese 2 - 0 Lecce
Lecco 0 - 0 Virtus Verona
Að lokum áttust Real Betis og Atalanta við í áhugaverðum æfingaleik en Ítalirnir frá Bergamó gerðu sér lítið fyrir og jörðuðu Spánverjana á fyrstu 50 mínútum leiksins.
Luis Muriel, Marten de Roon og Ederson komust á blað í 0-3 sigri Atalanta.
Atalanta hefur ekki gengið sérlega vel á tímabilinu og tapaði liðið til að mynda þremur síðustu deildarleikjum sínum í röð fyrir HM hlé.
Atalanta er í sjötta sæti ítölsku deildarinnar með 27 stig eftir 15 umferðir. Liðið er búið að tapa fjórum af fimm síðustu leikjum sínum í Serie A, en það eru einu tapleikirnir í deildinni hingað til.
Real Betis 0 - 3 Atalanta
0-1 Luis Muriel ('22)
0-2 Marten de Roon ('27)
0-3 Ederson ('48)