„Þetta var mjög svekkjandi. Þetta var hörkuleikur tveggja mjög góðra liða og því miður skoraði ÍBV meira en við í dag og það dugir þeim til að fara áfram og við erum úr leik," sagði Jón Sveinsson þjálfari Fram eftir 1 - 2 tap gegn ÍBV í 8 liða úrslitum Mjólkurbikarsins í kvöld.
Lestu um leikinn: ÍBV 2 - 1 Fram
„Mér fannst við betri á löngum köflum en það snýst ekki um það. Þetta snýst um fjölda skoraðra marka og þeir skoruðu einu meira en við í dag og þess vegna fara þeir í undanúrslit í þessari keppni sem er flott hjá þeim og ég óska þeim til hamingju með það."
Jón var mjög ósáttur eftir leikinn og kvartaði í starfsmanni ÍBV undan Páli Magnússyni stuðningsmanni ÍBV sem var einn þeirra 10 sem fengu að vera í stúkunni fyrir hönd heimamanna.
„Mér fannst óþarfa dónaskapur í sumum mönnum í stúkunni og ég tala nú ekki um þjóðkjörinn fulltrúa okkar á þingi, ég var ósáttur við hvernig hann hagaði sér og hafði viðlíka orðbragð. Páll Magnússon var mjög dónalegur. Auðvitað geta menn sagt það sem þeir vilja fyrir utan völlinn en menn þurfa að passa orðbragðið og sýna smá kurteisi."
Nánar er rætt við Jón í sjónvarpinu hér að ofan þar sem hann ræðir meðal annars liðsstyrk sem hann hefur fengið undanfarið.
Athugasemdir