Rashford gerir allt til að komast til Barcelona - Lecce hafnar tilboði Man Utd - Duran til Real Madrid?
   lau 26. mars 2022 23:41
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Mjög vont í hjartað en stundum þarf maður að hugsa um sjálfan sig"
Menn hjá FH sýndu allir að þeir vildu alls ekki missa mig
Menn hjá FH sýndu allir að þeir vildu alls ekki missa mig
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Ég átti færri leiki þar sem ég var mjög lélegur
Ég átti færri leiki þar sem ég var mjög lélegur
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Við höfum æft helvíti vel
Við höfum æft helvíti vel
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Átti góðan leik gegn Rosenborg í fyrra
Átti góðan leik gegn Rosenborg í fyrra
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Jónatan í leik gegn Víkingi í vetur.
Jónatan í leik gegn Víkingi í vetur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jónatan hittir Hörð Inga fyrir hjá Sogndal
Jónatan hittir Hörð Inga fyrir hjá Sogndal
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Logi Hrafn líklegur í að fara erlendis
Logi Hrafn líklegur í að fara erlendis
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óli Jóh og Bjössi Hreiðars
Óli Jóh og Bjössi Hreiðars
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH-ingurinn Jónatan Ingi Jónsson skrifaði fyrr í vikunni undir þriggja ára samning við norska félagið Sogndal. Jónatan er 23 ára gamall kantmaður sem hefur áður á sínum ferli verið á mála hjá félagi erlendis því á árunum 2015-2018 var hann hjá AZ í Hollandi.

Jónatan átti gott tímabil í fyrra með FH, skoraði sex mörk í 22 leikjum og átti sitt besta tímabil í FH treyjunni frá því hann kom frá Hollandi. Hann lék á sínum tíma 25 leiki fyrir yngri landslið Íslands og skoraði í þeim sex mörk. Jónatan ræddi við Fótbolta.net um skiptin til Sogndal í morgun.

Ekki fullkomlega sáttir en vildu ekki standa í vegi fyrir þessu tækifæri
„Ég heyrði fyrst af áhuga Sogndal fyrir um viku síðan, þetta gerðist mjög fljótt. Bjarki [Gunnlaugsson] talaði við mig og sagði mér frá áhuga Sogndal. Hann spurði hvort ég hefði áhuga á að skoða það, ég hafði alveg áhuga á því en lét vita að þetta þyrfti að ganga upp fyrir fjölskylduna líka."

„Ég talaði líka mikið við Hödda og Valda og spurði hvort að þetta væri skref upp á við. Ég talaði einnig við Matta Vill líka. Þeir voru allir á því að þetta væri spennandi kostur, það eru mörg sterk lið í þessari deild sem hafa síðustu ár verið í efstu deild. Ég held að þetta sé passlega stórt skref fyrir mig á þessum tímapunkti, fæ vonandi að spila nóg þó að auðvitað þurfi maður að berjast fyrir sæti í liðinu."

„Ég hugsaði að þetta gæti verið gott og hlutirnir gerðust mjög fljótt. Þeir hjá FH voru mjög almennilegir í viðræðunum, vildu gera allt til að halda mér og buðu mér nýjan samning. Þeir voru kannski ekkert sáttir að ég væri að fara en voru samt mjög almennilegir og vildu ekki standa í vegi fyrir mér."


Er langt síðan FH bauð þér nýjan samning?

„Það er búið að vera í vinnslu í svona mánuð, síðan þegar þetta kom upp þá buðu þeir mér aftur nýjan samning og sýndu að þeir vildu alls ekki missa mig. Á sama tíma skildu þeir að þetta væri tækifæri fyrir mig og vildu ekki standa í vegi fyrir mér."

Kærastan stendur mjög þétt við bakið á Jónatani
Varðandi fjölskylduaðstæður, var bara tekin fundur og fundin lausn?

„Já, eiginlega. Það eru alls konar praktísk atriði sem þurfa að ganga upp, bæði með samninginn hjá Sogndal og líka varðandi leikskólamál fyrir dóttur mína og þess háttar. Menn hjá Sogndal voru mjög almennilegir og hjálpa mér með allt slíkt."

„Síðan þarf að ræða við kærustuna, hvort hún sé tilbúin í þetta. Hún stendur mjög þétt við bakið á mér, ég verð fyrst einn hérna í smá tíma og síðan koma þær eftir prófin hjá henni. Það er bara flott lausn. Þetta er ekki sjálfgefið og ég tek þessu alls ekki sem sjálfsögðum hlut. Hún veit að þetta hefur verið markmið frá því ég kom til Íslands."


Lecce gerði tilboð síðasta sumar
„Tímabilið í fyrra var svona í fyrsta sinn sem mér fannst ég eiga jafnt og gott tímabil. Tímabilin á undan fannst mér vera svolítið upp og niður. Ég var ekki með góða tölfræði fyrr en í fyrra, þá fór hún upp. Ég hefði getað tekið eitt tímabil í viðbót."

„Það kom upp síðasta sumar að fara út en þá fannst mér það ekki vera á réttum forsendum. Í vetur hafa verið þreifingar, FH vissi alveg að þetta gæti komið upp og við fjölskyldan höfum rætt þessa hluti áður. Að þessu sinni ákvað ég að grípa tækifærið."


Hvaða möguleikar voru í stöðunni síðasta sumar?

„Lecce gerði tilboð í mig en ég var ekki alveg tilbúinn í það, eins gott og gaman það hefði verið að vera með Þóri þar. Það voru ýmsir hlutir í kringum það sem gengu ekki upp."

Pásan eftir tímabilið hjálpar íslensku leikmönnunum ekki
Frá því að þú komst aftur í FH frá AZ er þetta sá vetur þar sem þú hefur verið hvað næst því að fara út?

„Já, ég myndi segja það. Fyrir nokkrum árum fór ég á nokkrar reynslur eftir að ég kom til FH, til Elfsborg og Mjöndalen og svoleiðis. Núna er ég kannski kominn yfir þann aldur að fara á reynslu hjá liðum og mér fannst eftir tímabilið í fyrra að það væru líkur á því að ég færi út."

„Ég átti mjög góðan leik í Evrópuleknum gegn Rosenborg hér heima og það voru einhverjar þreifingar eftir það. Það fór ekki í gegn, eftir tímabilið er svo löng pása fram í janúar - þrír mánuðir - sem getur komið í veg fyrir að leikmenn frá Íslandi fari út."


Vildi ekki fara frítt út og vildi að FH fengi eitthvað fyrir sig
Það er nánast árlegur viðburður að lesa fréttina: Jónatan Ingi framlengir við FH. Hefuru meðvitað ekki skrifað undir langan samning til að halda þessum möguleika opnum að fara aftur út?

„Það er hárrétt lesið í þetta. Ég held að ég hafi skrifað þrisvar eða fjórum sinnum undir hjá FH og í rauninni alltaf skrifað undir eitt ár fram í tímann. Þegar svo nokkrir mánuðir voru í að samningurinn rennur út þá gerðum við nýjan samning."

„Það tengdist í raun ekkert því að ég vildi ekki skuldbinda mig við FH heldur vildi ég halda ákveðnum möguleikum opnum á því að fara út. Síðan þegar gekk betur þá fékk ég betri samning og slíkt - nokkrir þættir sem spila inn í."

„Þú vilt ekkert endilega fara frítt út, vilt að félögin vilji virkilega fá þig. Ef þau eru tilbúin að kaupa þig þá hafa þau virkilega áhuga. Svo vildi ég auðvitað að FH fengi eitthvað fyrir sinn snúð."


Frábært tímabil ef hann hefði nýtt helminginn af færunum sem fóru forgörðum
Það hefur verið talað um að þú eigir þína toppa í FH treyjunni en það hafi kannski vantað stöðugleika og frammistöður gegn bestu liðum deildarinnar. Tekuru undir það?

„Fyrstu árin mín hjá FH get ég klárlega tekið undir þetta. Í fyrra átti ég einn mjög lélegan leik, gegn Val úti þegar þeir pökkuðu okkur saman en í öðrum leikjum á móti þessum stórum leikjum fannst mér ég eiga góða leiki. Ég átti mjög góðan leik gegn Víkingum á útivelli í byrjun móts og allt í lagi í heimaleiknum undir lok móts. Þar fékk ég tvö dauðafæri sem ég hefði átt að nýta. "

„Ég myndi segja að ég hefði átt frábært tímabil í fyrra ef ég hefði nýtt helminginn af þeim færum sem ég fékk, þá hefði maður litið aðeins öðruvísi á þetta. Við sem heild vorum ekki nægilega góðir í fyrra og ég er klárlega partur af því."

„Mér fannst ég samt sýna mestan stöðugleika í fyrra frá því ég kom frá Hollandi. Ég átti færri leiki þar sem ég var mjög lélegur, þeir koma alltaf inn á milli en þeir voru færri í fyrra. Ég hefði samt getað átt fleiri toppa í þessum stórleikjum, ég er alveg sammála því."


Ætlar sér upp í efstu deild
Er klárt að Sogndal ætlar sér upp?

„Já, liðið hefur verið nálægt því undanfarin ár og komst í umspilið í fyrra. Þeir eru á því að hópurinn er sterkari núna en í fyrra en ég held að það sé klárt að við ætlum að stefna upp."

Rosalega erfitt að fara
Var erfitt að fara frá FH á þessum tímapunkti?

„Það var rosalega erfitt, bæði af því ég er uppalinn FH-ingur og ég held að liðið hafi sjaldan litið jafnvel út og það gerir núna. Liðið er í góðu formi og gengið hefur verið gott á undirbúningstímabilinu."

„Ég hefði líka viljað byggja ofan á mitt fyrsta virkilega góða tímabil í fyrra. Við enduðum í sjötta sæti og það voru vonbrigði, ég hefði viljað gera eitthvað í sumar og bæta tölfræðina ennþá meira - bæði hvað liðið varðar og sjálfan mig."

„Menn hjá FH sýndu allir að þeir vildu alls ekki missa mig, að ég væri vel metinn og að það yrði mjög erfitt að missa mig. Það var mjög vont í hjartað en stundum þarf maður að hugsa um sjálfan sig og mér fannst þetta tækifæri vera rétt fyrir mig núna. Ég verð að reyna grípa það."


Síðasta ár Loga Hrafns í FH? - Þurfa að byrja vel
Hefuru trú á FH í sumar?

„Ég hef 100% trú á að FH geti gert flotta hluti í sumar. Liðið hefur fengið sterka pósta inn í Finni Orra, Ástbirni og Kidda Frey svo ég telji einhverja upp. Þeir sem voru fyrir eru í enn betra formi og Logi Hrafn á eftir að spila stóra rullu. Hann er ungur strákur og ofboðslega góður. Mér finnst ólíklegt að hann spili mikið meira en eitt tímabil með FH í viðbót."

„Við erum búnir að bæta okkur í líkamlega þættinum, erum vel drillaðir og þeir Bjössi Hreiðars og Óli Jóh hafa komið mjög vel inn í hlutina. Það verður erfitt að gera eitthvað, við þurfum að byrja vel og það eru 4-5 önnur lið sem verða líka mjög sterk. Það verður spennandi að sjá hvernig þetta verður eftir tvískiptingu, vonandi verður FH í góðri stöðu á þeim tímapunkti."


Langar tveggja tíma Óla Jóh æfingar
Fannstu mun á þessu undirbúningstímabili frá því fyrir síðasta tímabil?

„Já, klárlega. Ég verð að segja að við höfum æft helvíti vel og Robin [Adriaenssen] nýi styrktarþjálfarinn hefur komið mjög vel inn í þetta. Þetta hafa verið virkilega langar tveggja tíma Óla Jóh æfingar. Þetta hefur verið alvöru keyrsla, spilað fína leiki og menn hafa hugsað vel um sig. Ég fann klárlega mun á okkur."

Sogndal spilar sinn fyrsta deildarleik eftir níu daga en í dag á liðið æfingaleik gegn Brann. Jónatan endaði viðtalið á „áfram FH og áfram Sogndal."
Athugasemdir
banner
banner
banner