Bayern gerir lokatilraun til að fá Palhinha - Barcelona og PSG vilja Alvarez - Verður Isak áfram hjá Newcastle?
   fim 27. júní 2024 21:19
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Einstefna í Garðabæ - Fylkir kom tvisvar til baka gegn KR
Helgi Guðjónsson skoraði tvö
Helgi Guðjónsson skoraði tvö
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Danijel Dejan Djurci lagði upp þrjú
Danijel Dejan Djurci lagði upp þrjú
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristján Flóki skoraði bæði mörk KR-inga
Kristján Flóki skoraði bæði mörk KR-inga
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nikulás Val gerði jöfnunarmark Fylkis tuttugu mínútum fyrir leikslok
Nikulás Val gerði jöfnunarmark Fylkis tuttugu mínútum fyrir leikslok
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslands- og bikarmeistarar Víkings unnu sannfærandi 4-0 sigur á Stjörnunni í 12. umferð Bestu deildar karla á Samsung-vellinum í Garðabæ í kvöld. KR og Fylkir gerðu 2-2 jafntefli á Meistaravöllum, en Fylkismenn komu tvisvar til baka í baráttuleik.

Ekki tók það Víkinga langan tíma að taka öll völd í Garðabæ. Fyrst hótaði Erlingur Agnarsson marki á 6. mínútu en setti boltann framhjá etir sendingu Danijel Dejan Djuric.

Danijel átti stórleik í liði Víkinga. Hann lagði upp fyrsta markið fyrir Nikolaj Hansen á 10. mínútu. Danijel keyrði upp vinstri vænginn, kom boltanum á Hansen sem stýrði honum í netið. Einhverjir Stjörnumenn kölluðu eftir broti Danijels á Óla Val Ómarssyni í aðdragandanum en markið stóð.

Karl Friðleifur Gunnarsson gerði annað markið á 22. mínútu eftir sendingu frá Matthíasi Vilhjálmssyni. Karl fagnaði að hætti enska landsliðsmannsins Cole Palmer. Víkingar komnir með þægilega forystu og gat Danijel bætt við þriðja en skot hans hafnaði í stöng um tíu mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks.

Snemma í þeim síðari átti Danijel annað stangarskot. Allt að ganga upp hjá honum í leiknum, nema kannski að klára færin.

Átta mínútum eftir færið lagði hann upp annað mark sitt í leiknum þegar hann kom með stórkostlega fyrirgjöf frá hægri og inn í teiginn á Helga Guðjónsson sem skoraði með frábæru utanfótarskoti efst í hægra hornið.

Danijel gerði þriðju stoðsendingu sína í leiknum á 78. mínútu leiksins. Hann keyrði á vörn Stjörnumanna, sendi hann á milli þeirra og til Helga sem afgreiddi boltann snyrtilega í netið.

Gæðamunurinn á liðunum svakalegur í kvöld. Víkingar með 30 stig í efsta sæti deildarinnar og fjögurra stiga forystu á Breiðablik, en Stjarnan dettur niður í 7. sæti með 16 stig.

Sterkt stig hjá Fylki

KR og Fylkir gerðu 2-2 jafntefli í hörkuleik á Meistaravöllum, en gestirnir komu tvisvar til baka.

Leikurinn bauð ekki upp á mörg færi fyrsta hálftímann eða svo. KR-ingar voru alltaf líklegri til að gera fyrsta markið og kom það þegar um átta mínútur voru eftir af fyrri hálfleik.

Aron Sigurðarson kom með boltann frá vinstri og á ennið á Kristjáni Flóka Finnbogasyni. Boltinn var lengi á leið í markið og leit Ólafur Kristófer Helgason, markvörður Fylkis, ekkert sérlega vel í markinu.

KR-ingar byrjuðu síðari hálfleikinn sterkt en náðu ekki að nýta sér það. Fylkismenn refsuðu með jöfnunarmarki á 51. mínútu er Birkir Eyþórsson kom með fyrirgjöfina á Þórodd Víkingsson, sem kom boltanum í netið.

Gestirnir fengu mark strax í andlitið. Aron Sigurðar með sendingu á fjærstöngina. Kristján Flóki virtist vera að missa af boltanum en náði að koma hausnum í hann og koma KR-ingum í 2-1.

Tæpum tuttugu mínútum fyrir leikslok jöfnuðu Fylkismenn í annað sinn. Varamaðurinn Ómar Björn Stefánsson lék á varnarmann áður en hann lagði boltann á Nikulás Val Gunnarsson sem kláraði í autt markið.

Þegar fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma gátu KR-ingar tekið öll stigin. Alex Þór Hauksson kom með frábæran bolta á fjær á Axel Óskar Andrésson. Hann setti boltann fyrir á Finn Tómas Pálmason sem skaut yfir úr frábæru færi.

Liðin sættust á að deila stigunum í Vesturbæ. KR er með 13 stig í 8. sæti en Fylkir áfram í botnsætinu með 8 stig.

Úrslit og markaskorarar:

Stjarnan 0 - 4 Víkingur R.
0-1 Nikolaj Andreas Hansen ('10 )
0-2 Karl Friðleifur Gunnarsson ('22 )
0-3 Helgi Guðjónsson ('58 )
0-4 Helgi Guðjónsson ('78 )
Lestu um leikinn

KR 2 - 2 Fylkir
1-0 Kristján Flóki Finnbogason ('37 )
1-1 Þóroddur Víkingsson ('51 )
2-1 Kristján Flóki Finnbogason ('52 )
2-2 Nikulás Val Gunnarsson ('72 )
Lestu um leikinn
Besta-deild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Víkingur R. 13 9 3 1 32 - 13 +19 30
2.    Breiðablik 13 8 2 3 27 - 15 +12 26
3.    Valur 13 7 4 2 32 - 18 +14 25
4.    ÍA 12 6 2 4 24 - 17 +7 20
5.    FH 12 6 2 4 22 - 21 +1 20
6.    Fram 12 4 4 4 18 - 18 0 16
7.    Stjarnan 13 5 1 7 24 - 28 -4 16
8.    KR 12 3 4 5 22 - 24 -2 13
9.    HK 12 4 1 7 15 - 23 -8 13
10.    KA 12 3 2 7 19 - 28 -9 11
11.    Vestri 12 3 1 8 15 - 31 -16 10
12.    Fylkir 12 2 2 8 18 - 32 -14 8
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner