Man Utd hefur mikinn áhuga á Kvaratskhelia - Man Utd fylgdist með þremur leikmönnum Sporting - Arsenal fylgist með Retegui
   mið 27. nóvember 2024 09:00
Brynjar Ingi Erluson
Rúnar Alex úti í kuldanum hjá FCK - „Þeir eru bestu markverðir félagsins í dag”
Rúnar Alex Rúnarsson
Rúnar Alex Rúnarsson
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Jacob Neestrup, þjálfari FCK
Jacob Neestrup, þjálfari FCK
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Rúnar Alex Rúnarsson, markvörður FCK í Danmörku, er ekki í myndinni hjá danska þjálfaranum Jacob Neestrup, en þetta sagði hann í viðtali við danska miðilinn Bold á dögunum.

Markvörðurinn hefur aðeins spilað einn leik síðan hann samdi við félagið í febrúar.

Áætlun félagsins var að fá Rúnar til að taka við markvarðarstöðunni af Kamil Grabara sem hafði þegar náð samningum um að ganga í raðir Wolfsburg í Þýskalandi.

Hann sat því á bekknum seinni hluta síðasta tímabil og átti að taka við stöðunni í sumar, en aðstæður breyttust og var Nathan Trott fenginn frá West Ham.

Trott hefur verið aðalmarkvörður síðan, fyrir utan eina leik Rúnars í treyjunni, sem var gegn Magpies í forkeppni Sambandsdeildarinnar.

Í síðustu tveimur leikjum hefur Rúnar verið utan hóps hjá FCK eða eftir að danski unglingalandsliðsmarkvörðurinn Theo Sander sneri aftur úr meiðslum. Sanders var kastað beint í byrjunarliðið og er Trott nú kominn á bekkinn.

„Þetta er á milli Nathan og Theo. Það eru skilaboðin sem þeir hafa fengið. Þeir tveir berjast um stöðuna út þetta ár,“ sagði Neestrup við Bold.

Neestrup var spurður hvort Rúnar væri ekki lengur í myndinni og svaraði hann þá nokkuð skýrt að hann kæmi ekki til greina í samkeppnina.

„Þeir tveir berjast um stöðuna. Bara þeir tveir“

„Þetta er eins og þegar við spilum með hægri bakvörð eða sóknarmann í staðinn fyrir annan hægri bakvörð og sóknarmann. Ég spila þeim mönnum sem ég tel besta.“

„Akkúrat núna eru Theo Sander og Nathan Trott bestu markverðir FCK,“
sagði hann í lokin.

Rúnar gerði þriggja ára samning við FCK í febrúar en hann þarf væntanlega alvarlega að íhuga það að koma sér frá félaginu í leit að meiri spiltíma.

Þessi 29 ára gamli markvörður hefur lítið fengið að spreyta sig síðustu tvö tímabil. Hann var á láni hjá Cardiff City frá Arsenal fyrri hluta síðasta tímabil, en lék aðeins sjö leiki.

Þegar hann var hjá Cardiff missti hann markvarðarstöðuna í landsliðinu en hann hefur ekki verið valinn í hópinn síðan í nóvember í fyrra er Hákon Rafn Valdimarsson eignaði sér stöðuna.

Rúnar hefur margoft sýnt það og sannað að hann sé frábær markvörður. Tímabilið 2022-2023 var hann á láni hjá Alanyaspor í Tyrklandi og var með bestu mönnum liðsins og hafði þá áður gert vel með Leuven, Dijon og Nordsjælland, en hann þarf að fá röð leikja til að finna sitt gamla form, hvar sem það verður.
Athugasemdir
banner
banner
banner