Man Utd hefur mikinn áhuga á Kvaratskhelia - Man Utd fylgdist með þremur leikmönnum Sporting - Arsenal fylgist með Retegui
   mið 27. nóvember 2024 11:00
Elvar Geir Magnússon
Fjórir Íslendingar í úrslitakeppninni - LAFC sýnir Lúkasi áhuga
Varnarmaðurinn Lúkas Magni Magnason hefur fengið boð um að æfa með LAFC.
Varnarmaðurinn Lúkas Magni Magnason hefur fengið boð um að æfa með LAFC.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Fjórir íslenskir fótboltamenn eru áfram með í úrslitakeppninni í bandaríska háskólaboltanum.

Sigurður Arnar Magnússon (Ohio State), Hjalti Sigurðsson (Dayton), og Lúkas Magni Magnason (Clemson) eru allir komnir í 16-liða úrslitin í karlaboltanum eða 'Sweet Sixteen' eins og það er kallað.

Ef Sigurður, sem er varnarmaður ÍBV, og Lúkas, sem rifti samningi við KR nýlega, vinna sína leiki mætast þeir í 8-liða úrslitum.

Sigurður á tæplega 100 leiki í efstu deild á Íslandi ásamt því að hafa spilað með U21 landsliðinu. Hjalti skrifaði nýverið undir samning við KR og er mættur aftur heim í Vesturbæinn. Hjalti á samtals 24 yngri landsleiki fyrir hönd Íslands.

Heyrst hefur að það sé mikill áhugi á Lúkasi í Bandaríkjunum. Þessi 19 ára leikmaður hefur fengið boð um að æfa með MLS-liðinu Los Angeles FC þegar háskólatímabilinu lýkur. Lúkas á að baki sjö yngri landsleiki fyrir Ísland.

Kristín Erla Johnson hefur verið frábær á þessu tímabili og tryggt liði Wake Forest sæti í 8-liða úrslitum, sem Bandaríkjamenn kalla 'Elite Eight'. Wake Forest mætir University of Southern California í 8-liða úrslitum. Kristín Erla er uppalin í KR en er hjá Víkingi Reykjavík Hún hefur spilað tólf yngri landsleiki fyrir Ísland.
Athugasemdir
banner