Jude Bellingham, leikmaður Real Madrid og liðsfélagi Trent Alexander-Arnold í enska landsliðinu, vildi ekki tjá sig of mikið um möguleg félagaskipti þess síðarnefnda til Madrídarliðsins.
Enskir og spænskir fjölmiðlar hafa rætt og ritað um framtíð Alexander-Arnold síðustu vikur.
Hann verður samningslaus eftir tímabilið og eru meiri líkur en minni á að hann endi hjá Real Madrid næsta sumar.
Bellingham og Trent eru góðir vinir en hann Madrídingurinn vildi tala sem minnst um orðróm um Trent á blaðamannafundi í gær.
„Ég mun alla vega spila við hlið hans í enska landsliðinu á næsta ári. Það er öruggt,“ sagði Bellingham á blaðamannafundi í gær.
„Hann er leikmaður Liverpool og það væri vanvirðing af minni hálfu að koma á heimavöll hans fyrir stórleik og tala um eitthvað sem gæti verið misskilið þannig það er mikilvægt að taka þá pressu af honum.“
„Hann er góður vinur minn og ég vil að honum gangi vel, bara ekki í kvöld. Við munum sjá til hvað gerist, en hann er leikmaður Liverpool,“ sagði Bellingham.
Athugasemdir