Portúgalski unglingalandsliðsmaðurinn Geovany Quenda er í sigtinu hjá Manchester City og Manchester United en þetta segir Sky Sports.
Quenda er 17 ára gamall og er kantmaður að upplagi en hann er á mála hjá Sporting Lisbon í hemalandinu.
Hann samdi fyrst við Damaiense í Portúgal en það vakti athygli að hann mætti í gallabuxum og venjulegum skó á fyrstu æfingu sína og var langbestur á vellinum.
Síðar fór hann til Benfica áður en Sporting fékk hann árið 2019.
Hann fékk sitt fyrsta tækifæri með aðalliði Sporting undir stjórn Ruben Amorim á þessu tímabili en þjálfarinn breytti honum í vængbakvörð og er leikstíll hans sagður minna á Bukayo Saka, leikmann Arsenal.
Amorim hætti með Sporting í byrjun mánaðar og tók við Manchester United en hann vill ólmur fá Quenda yfir til United.
„Hann er göldróttur og mun eiga stórkostlega framtíð með portúgalska landsliðinu,“ sagði Roberto Martinez, þjálfari portúgalska landsliðsins um Quenda, en hann valdi leikmanninn í fyrsta sinn í A-landsliðið í nóvember og gat gert hann að yngsta leikmanni í sögu landsliðsins, en kaus að nota hann ekki.
Quenda er með 83,4 milljóna punda riftunarákvæði í samningnum en United hafði áhuga á honum áður en Amorim tók við liðinu. Manchester City er einnig sagt vera í baráttunni um hann, en Quenda lagði einmitt upp eitt mark í 4-1 sigrinum á enska liðinu á dögunum.
Portúgalinn fór í gegnum unglingaliðin hjá Sporting sem kantmaður í 4-3-3 leikkerfinu en náði að aðlagast vel 3-4-2-1 kerfi Amorim.
Það er aðeins tímaspursmál hvenær hann tekur næsta skref ferilsins og er ljóst að baráttan verður mikil um „strákinn í gallabuxunum“.
Athugasemdir