Willum Þór Willumsson átti fínan leik í liði Birmingham sem vann Exeter, 2-0, í ensku C-deildinni í kvöld.
Birmingham Mail skrifar um frammistöðu Blikans þar sem það segir hann hafa staðið sig vel í leiknum en að hann hafi þó farið illa með tvö frábær færi.
Willum gat skorað tvö mörk í fyrri hálfleiknum. Tomoki Iwata skoraði á 11. mínútu og nokkrum mínútum síðar gat Willum tvöfaldað forystuna eftir fyrirgjöf Alexander Cochrane en skallaði boltanum framhjá.
Þegar hálftími var liðinn fékk hann annað dauðafæri og var hann þá nær markinu er Paik Seung-ho kom með sendinguna fyrir en aftur fór boltinn framhjá.
Það fór þó allt vel. Á lokamínútunum fengu Birmingham-menn vítaspyrnu sem Jay Stansfield skoraði úr og lokatölur 2-0.
Birmingham Mail gaf Willum 6 í einkunn sem var sú lægst af öllum þeim sem byrjuðu leikinn.
Alfons Sampsted var ekki í hópnum hjá Birmingham sem er í 3. sæti með 33 stig.
Jón Daði Böðvarsson var þá ekki í hópnum hjá Wrexham sem marði Lincoln, 1-0. Wrexham er í öðru sæti með 34 stig.
Athugasemdir