Liverpool og Real Madrid mætast á morgun í stórleik umferðarinnar í Meistaradeild Evrópu en leikurinn fer fram á Anfield.
Þessi tvö félög hafa mæst tvisvar sinnum í úrslitum Meistaradeildarinnar síðustu sex ár.
Real Madrid vann 3-1 sigur í úrslitaleiknum árið 2018 og vann þá nauman 1-0 sigur árið 2022.
Alls hafa liðin mæst ellefu sinnum en Real Madrid hefur unnið sjö leiki, Liverpool þrjá og þá endaði einn með jafntefli.
Arne Slot, stjóri Liverpool, uppfærði stöðuna á liðinu í dag og kom þar fram að Alisson er enn frá og mun því Caoimhin Kelleher vera áfram í markinu.
Trent Alexander-Arnold mun byrja á bekknum. Diogo Jota og Federico Chiesa eru áfram meiddir.
Luis Díaz mun líklega kom inn í liðið í stað Cody Gakpo og þá gæti Alexis Mac Allister komið inn fyrir Curtis Jones.
Líklegt byrjunarlið Liverpool: Kelleher (M), Bradley, Konate, Van Dijk, Robertson, Gravenberch, Mac Allister, Salah, Szoboszlai, Díaz, Nunez.
Carlo Ancelotti, þjálfari Real Madrid, neyðist til að gera breytingar á sínu liði. Stórstjarnan Vinicius Junior verður fjarri góðu gamni og útlit fyrir að hann verði ekki meira með á þessu ári.
Federico Valverde leit vel út í hægri bakverði í síðasta deildarleik og mun hann væntanlega halda áfram að spila þar í fjarveru Dani Carvajal.
Rodrygo, Aurelien Tchouameni, Lucas Vazquez, Eder Militao og David Alaba eru þá áfram á meiðslalistanum.
Líklegt byrjunarlið Real Madrid: Courtois (M), Valverde, Asencio, Rüdiger, Mendy, Camavinga, Modric, Güler, Bellingham, Mbappe, Brahim.
Athugasemdir