Mikel Arteta, stjóri Arsenal, var himinljómandi glaður með frammistöðu liðsins í 5-1 stórsigrinum á Sporting í Meistaradeildinni í kvöld, en hann segir að liðið verða að njóta þess að spila í keppninni.
Sporting er eitt af spútnikliðum Meistaradeildarinnar í ár. Liðið hefur spilað frábærlega og meðal annars unnið Manchester City, en liðið átti ekki séns í Arsenal.
Enska liðið fór með þriggja marka forystu inn í hálfleik. Það fór ekki um liðið þó Goncalo Inacio minnkaði muninn snemma í þeim síðari, heldur gaf það Arsenal kraft til að gera endanlega út um leikinn með tveimur mörkum.
„Ég er mjög ánægður. Þetta eru stór úrslit gegn stóru liði og við vildum koma með þessa yfirlýsingu,“ sagði Arteta.
„Ég fann fyrir rosalega góðri orku og trú fyrir leikinn. Fyrri hálfleikurinn var stórkostlegur og við verðum að fylgja því svolítið eftir. Við vorum mjög snjallir, skarpir og afkastamiklir þegar við sóttum á þá.“
„Eftir að við fengum á okkur mark sýndum við mikinn persónuleika með að taka aftur völdin í leiknum og síðan skoruðum við fjórða markið sem breytti leiknum aftur.
„Þú verður að njóta þess. Þegar þú spilar í þessari keppni og gegn þessum liðum þá verður þú að njóta. Það sem ég elskaði við þetta lið er hvernig þeir náðu flæði á leikinn og spiluðu með tilgangi.“
„Ef þú ætlar að berjast um stóra titla þá verður þú að vera staðfastur,“ sagði hann í lokin.
Arsenal er í flottum málum í Meistaradeildinni en liðið er með 10 stig úr fimm leikjum og er í 7. sæti sem gefur þáttökurétt í 16-liða úrslit.
Athugasemdir