PGMOL, dómarasamband Englands, rannsakar nú enska dómarann David Coote vegna brota á veðmálareglum, en sambandið er með í höndunum skilaboð þar sem Coote talar um að gefa leikmanni Leeds gult spjald fyrir leik liðsins gegn WBA árið 2019.
Hinn 42 ára gamli Coote er þegar til rannsóknar eftir að myndband birtist á samfélagsmiðlum þar sem hann sagði Jürgen Klopp, fyrrum stjóra Liverpool, til syndanna og kallaði hann meðal annars „tussu“.
Eftir að það myndband lak út fór dómarasambandinu að berast skilaboð úr öllum áttum. Annað myndband lak á samfélagsmiðla þar sem Coote virðist sjúga hvítt duft í nefið á hótelherbergi sínu í Þýskalandi er hann var að dæma á Evrópumóti landsliða.
Þá hefur komið fram að hann hafi skipulagt „dóp-partí“ á meðan hann var við störf á leik Manchester City og Tottenham í enska deildabikarnum, en hann var fjórði dómari í þeim leik.
Sun greinir nú frá því að enska dómarasambandinu hafi borist sönnunargögn af mögulegu veðmálahneyksli. Coote á að hafa sent vini sínum skilaboð sem sögðu: „Vona að þú veðjað það sem við ræddum um.“
Dómarasambandið lítur málið alvarlegum augum en Coote hefur viðurkennt að samtalið hafi átt sér stað. Hann segir að þarna hafi farið fram grín milli vina og neitar hann alfarið sök um að eitthvað ósæmilegt hafi átt sér stað.
Sagan er þannig að Coote kynntist manni á netinu sem styður Leeds. Dómarinn montaði sig yfir þeirri staðreynd að hann væri að fara dæma leik liðsins gegn WBA. Maðurinn óskaði eftir því að Ezgjan Alioski, leikmaður Leeds, fengi spjald í leiknum, en samtal þeirra má sjá hér fyrir neðan.
Coote: Já, mjög gott. Ég dæmi hjá Leeds á morgun.
Vinurinn: Ooh, stórleikur. Það stendur enn það sem við ræddum (Alioski). Ef staðan er þannig kem ég kannski með þér í það.
Coote: Hana ég veit ekkert um hvað þú ert að tala.
Vinurinn: Haha jæja. Ég ætla að veðja á það í fyrramálið, þannig ekki bregðast mér.
Coote: Haha sjáum til.
Dómarinn gaf Alioski gula spjaldið á 17. mínútu leiksins, en eftir leik sendi Coote á vin sinn setninguna: „Þvílíkur dagur sem þetta var í gær. Vona að þú hafi veðjað á það sem við ræddum um.“
Vinurinn tjáði Coote að hann hafi ekki veðjað á að Alioski myndi fá gult spjald en að vinur hans hefði þó gert það og svaraði Coote: „Haha hann þarf þá að deila því með þér.“
Þetta var eina gula spjaldið sem Leeds fékk í leiknum en eins og kom fram hér að ofan er dómarasambandið með málið til rannsóknar. Alioski var klárlega brotlegur í því atviki og verðskuldaði tæklingin gult spjald, en samtalið lítur þó ekki vel út fyrir Coote.
Coote er í banni frá bæði enska fótboltasambandinu og UEFA, en ólíklegt er að hann fái að dæma aftur í ensku úrvalsdeildinni eftir atburði síðustu vikna.
Athugasemdir