
„Hörkulið og erfiður útivöllur. Skrítinn völlur auðvitað með þessa hlaupabraut og boltinn fer alltaf langt í burtu - jákvætt að það séu tíu boltar klárir í kring. Grasið var þurrt í byrjun og bæði lið voru í smá erfiðleikum. Þær gáfu okkur smá tíma á boltann í byrjun en svo jókst trúin þeirra. Við erum mjög sátt við þrjú stig," sagði Eiður Benedikt Eiríksson, annar af þjálfurum Vals, eftir sigur á Þór/KA í kvöld.
Lestu um leikinn: Þór/KA 0 - 2 Valur
„Betri er einn fugl í hendi en tveir í skógi, við erum sátt í smá stund." sagði Eiður þegar hann var spurður út í hvort það væri gott fyrir Val að vera á toppi deildarinnar í bili í það minnsta.
Elín Metta Jensen skoraði bæði mörk Vals í leiknum í dag.
„Við erum með einn Zlatan frammi sem getur klárað úr engu og þegar við erum í erfiðum leikjum. Mér fannst við ekki vera í takti fótboltalega og þá þarf að fara aðeins í grunngildin og vera klár þegar færin koma."
Eiður var spurður hvort hann hefði verið stressaður um að markið kæmi mögulega ekki hjá Val í kvöld.
„Ég veit það ekki það er auðvelt að segja nei en Þór/KA fékk alveg færi og hrós til þeirra, eiga að vera miklu ofar í þessari deild."
Ída Marín Hermannsdóttir og Lillý Rut Hlynsdóttir léku ekki með Val í dag þar sem þær eru í sóttkví. Þá var Ásgerður Stefanía Baldursdóttir ónotaður varamaður.
„Adda var aðeins tæp og gott að geta tekið hana aðeins út. Ída og Lillý fara að koma úr sóttkví og segjast vera að æfa á fullu. Ég trúi Lillý en ég veit ekki hvort ég eigi að trúa Ídu. Þær verða með gegn Selfossi í bikarnum," sagði Eiður. Nánar er rætt við Eið í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir