Patrick Pedersen fær gullskóinn í Pepsi-deild karla en hann skoraði 17 mörk í Pepsi-deildinni í sumar. Hann átti stóran þátt í því að Valur varð Íslandsmeistari annað árið í röð.
Daninn skoraði 17 mörk í 21 leik í sumar en næstur kom Hilmar Árni Halldórsson úr Stjörnunni með 16 mörk.
Mikið var talað um það að markametið myndi detta í sumar. Hilmar Árni var kominn með 15 mörk snemma en svo lenti hann í stíflu. Pedersen var með 17 mörk fyrir lokaumferðina, sem fram fór í dag, en honum tókst ekki að skora í 4-1 sigri á Keflavík.
Markametið stendur því enn, 19 mörk. Fimm leikmenn hafa skorað 19 mörk í efstu deild en þeir eru Andri Rúnar Bjarnason, Pétur Pétursson, Guðmundur Torfason, Þórður Guðjónsson og Tryggvi Guðmundsson.
Þetta er í annað sinn sem Pedersen er markakóngur í Pepsi-deildinni en hann var það einnig árið 2015 þegar hann skoraði 13 mörk í 20 leikjum. Hilmar Árni fær eins og áður segir silfurskóinn, en bronsskóinn fær Pálmi Rafn Pálmason úr KR. Hann skoraði 11 mörk í Pepsi-deildinni í sumar.
Thomas Mikkelsen úr Breiðabliki skoraði 10 mörk en það er mjög athyglisvert í ljósi þess að hann kom ekki fyrr en í júlíglugganum.
Sjá einnig:
Pedersen: Hugsaði um metið þegar við vorum 3-0 yfir
Athugasemdir