Pep vill fá fyrrum leikmann Liverpool - Liverpool fylgist með tveimur Svíum - Grealish orðaður við Tottenham
   mið 31. janúar 2018 13:37
Magnús Már Einarsson
Íslendingar sóttu um 53 þúsund miða á HM
Icelandair
Spennan fyrir HM er mikil.
Spennan fyrir HM er mikil.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alls bárust umsóknir um 52,899 miða frá íslenskum stuðningsmönnum á HM leiki Íslands á HM í Rússlandi næsta sumar. Þetta staðfesti FIFA í svari við fyrirspurn Fótbolta.net í dag.

Lokað var fyrir umsóknir á miða í morgun en reiknað er með að þeir sem sóttu um fái svör í síðasta lagi um miðjan mars. 13. mars hefst síðasta miðasalan á leiki HM en þar er um að ræða fyrstur kemur fyrstur fær.

Að yfir 50 þúsund umsóknir hafi borist frá Íslendingum kemur KSÍ í opna skjöldu.

„Þessi tala kemur mér á óvart. Ég viðurkenni það," sagði Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ við Fótbolta.net í dag.

„Við höfum ekki heyrt hósta né stunu frá FIFA í dag og ég hef bara heyrt þessa tölu frá fjölmiðlum. Ég veit ekki hvað er bakvið þessa tölu."

Hvað útskýrir þessa háu tölu?
Reiknað hefur verið með að íslenskir stuðningsmenn fái um það bil 8% miða á leikina í Rússlandi sem er í kringum 3200 miðar á leik.

Einhverjir íslenskir stuðningsmenn voru nú þegar búnir að tryggja sér miða á leikina síðastliðið sumar og möguleiki er á að þeir séu inni í þessari tölu frá FIFA.

Annað sem gæti útskýrt þess háu tölu er að þeir sem sóttu um mótsmiða til að fylgja Íslandi út keppnina séu með bókaða miða á alla leiki Íslands. Þar er um að ræða allt að sjö leiki ef Ísland spila úrslitaleik eða leik um 3. sætið.

Einnig er mögulegt að einhverjar tvíbókanir séu inni í tölunni frá FIFA. Þá gætu miðar sem KSÍ bókar fyrir sambandið einnig verið inni í þessari tölu.

Samt sem áður er talan mjög há og ljóst að umsóknirnar frá Íslandi eru talsvert fleiri en KSÍ reiknaði með. KSÍ hafði gefið út að mikil eftirspurn væri eftir miðum á leikinn við Argentínu en minni á leikina gegn Nígeríu og Króatíu. Ekki hefur verið gefið upp hvernig skiptingin er á umsóknum um miða á þessa leiki.

Samkvæmt þessum tölum frá FIFA er nokkuð ljóst að einhverjir íslenskir stuðningsmenn sem sóttu um verða að bíta í súrt epli og fá ekki miða á leikina.

Lönd með flestar miðaumsóknir
Rússland (2,503,957)
Þýskaland (338,414)
Argentína (186,005)
Mexíkó (154,611)
Brasilía (140,848)
Pólland (128,736)
Spánn (110,649)
Perú (100,256)
Kolumbía (87,786)
Bandaríkin (87,052)
Holland (71,096)
..........................
Ísland (52,899)

Leikir Íslands á HM:
16. júní Argentína - Ísland
22. júní Nígería - Ísland
26. júní Ísland - Króatía
Athugasemdir
banner
banner