Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðsfyrirliði Íslands, átti magnað tímabil með þýska stórveldinu Bayern München. Hún var fyrirliði liðsins sem fór taplaust í gegnum þýsku úrvalsdeildina.
Núna fyrr í þessum mánuði var það opinberað að Glódís væri í liði ársins í tölvuleiknum vinsæla FC 24. Hún fékk hæstu einkunn sem Íslendingur hefur fengið í leik á vegum Electronic Arts.
Hún fær 93 í einkunn en það var hæsta einkunn sem íslenskur leikmaður hefur fengið í tölvuleiknum, þangað til Albert Guðmundsson fékk 94 í einkunn fyrir að vera í liði ársins í ítölsku úrvalsdeildinni fyrir nokkrum dögum.
Glódís var spurð að því hvort að hún hefði tekið eftir þessu meti sem hún setti fyrir æfingu landsliðsins í gær. „Nei, ég spila ekki FIFA," sagði hún og hló.
„Ég veit ekkert hvað er gott og hvað er ekki gott. Kærastinn minn var kannski aðeins að ofpeppa þetta, en ég veit svo sem ekkert hvað þetta þýðir. Maður fær skilaboð við og við að einhver hafi verið - ég veit ekki hvað þetta heitir - að pakka mann eða eitthvað. Fólk er ánægt með þetta og það er jákvætt."
Ísland spilar við Austurríki í undankeppni í dag, en leikurinn hefst klukkan 16:00 að íslenskum tíma og verður í beinni textalýsingu hér á Fótbolta.net. Hann verður einnig sýndur í beinni útsendingu á RÚV.
Athugasemdir