Antony vill ekki yfirgefa Man Utd - Bakvörður Sevilla á blaði Man Utd - Newcastle ætlar að halda Trippier
   mán 31. október 2011 20:33
Hafliði Breiðfjörð
Laufey Björnsdóttir í Val (Staðfest)
Laufey Björnsdóttir sem hefur verið fyrirliði Fylkis undanfarin ár er gengin til liðs við bikarmeistara Vals en þetta staðfesti hún við Fótbolta.net í kvöld. Laufey hefur gert tveggja ára samning við Val.

,,Ég tel að þetta sé skref sem gerir mig betri, það er meiri metnaður og samkeppni. Ég held að ég þurfi að gera það til að verða betri leikmaður," sagði Laufey við Fótbolta.net.

,,Ég er búin að vera svolítið lengi að hugsa þetta. Ég ræddi við Breiðablik líka en valdi Val því ég held að það sé meiri samkeppni þar og ég þurfi að leggja meira á mig til að komast í liðið. Ég hef metnað og er tilbúin að leggja mikið á mig til að fá að spila."

Laufey sem er 22 ára gömul kom til Fylkis frá Breiðablik fyrir tímabilið 2008 og hefur leikið síðustu fjórar leiktíðir í appelsínugula búningnum. Á þeim tíma hefur hún leikið 80 leiki fyrir félagið í deild og bikar og skorað 14 mörk.

,,Ég skildi sátt við stelpurnar og stjórnina og á eftir að sakna þeirra mjög mikið," sagði Laufey.

Hún hóf meistaraflokksferil sinn árið 2004 með Þór/KA/KS en gekk til liðs við Breiðablik árið 2005 þar sem hún var þar til hún fór í Fylki. Hún hefur leikið 124 leiki í deild og bikar og skorað í þeim 25 mörk.

Laufey hefur leikið 21 landsleik með U19 ára landsliði Íslands og 11 með U17 ára liðinu.
banner
banner
banner