Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
   mán 08. apríl 2019 07:00
Ívan Guðjón Baldursson
Mesti stuðningsmaður íslenska landsliðsins er frá Bangladess
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Mohammad Sayeed Majumder er 23 ára maður sem býr í Bangladess, sem er land staðsett við austari hluta Indlands.

Það sem er merkilegt við Sayeed er að hann er einn stærsti stuðningsmaður íslenska landsliðsins. Hann horfir á alla landsleiki Íslands þrátt fyrir óþægilegan tímamismun og finnst mjög erfitt að hugsa til þess hversu fáir landsleikir eru spilaðir á hverju ári.

„Ég hef verið stuðningsmaður íslenska landsliðsins síðan 2016. Ég er mikill aðdáandi Gylfa Sigurðssonar, hann er frábær leikmaður og svellkaldur á vellinum. Allir knattspyrnuunnendur elska rólega leikmenn," segir Sayeed.

Sayeed er metnaðarfullur og er búinn að búa til risastóran íslenskan fána til að sýna stuðning sinn við landsliðið. Hann hefur birt margar myndir af fánanum á aðgangi sínum á Twitter og þarf að hafa heilan hóp af fólki með sér til að geta haldið fánanum útbreiddum í fullri lengd.

Sayeed talar um að hann ætli að stækka fánann í framtíðinni og vill ólmur fá íslenska landsliðstreyju.

„Víkingaklappið hreif mig og vini mína hér í Bangladess og er þekkt um allan heim. Vonandi kemst Ísland á EM 2020, þá verður fáninn orðinn ótrúlega stór.

„Hér er erfitt að verða sér úti um góða landsliðstreyju og ég yrði mjög ánægður með að fá landsliðstreyju Íslands senda hingað."


Sayeed er með næstum því 3000 fylgjendur á Twitter og er nýlega byrjaður að reyna að vekja athygli fjölmiðla á sér. Draumur hans er að koma til Íslands og taka Víkingaklappið á Laugardalsvelli.










































Athugasemdir
banner
banner
banner