Kveikt í skipum í Vesturbænum
KR er spáð 4. sæti í spá Fótbolta.net fyrir tímabilið í ár. Óskar Hrafn Þorvaldsson er þjálfari KR, tók við því hlutverki seinni part síðasta sumars og er því að fara inn í sitt fyrsta heila tímabil sem þjálfari liðsins. Hann rædd við Fótbolta.net í vikunni.
„Þetta leggst frábærlega í mig, ég sagði það örugglega við ykkur að ég hlakka mikið til og hef sjaldan eða aldrei hlakkað jafnmikið til nokkurs keppnistímabils eins og þessa. Það spilar auðvitað inn í að ég er að þjálfa KR og við getum ekki beðið eftir því að mótið byrji," sagði Óskar. Viðtalið í heild sinni má nálgast í spilaranum neðst.
KR-ingar mæta KA í fyrsta leik á sunnudag, ferðast norður og mæta bikarmeisturunum á Greifavelli.
„Það er alltaf gaman að spila á Akureyri og við höfum átt fína leiki við KA. Þeir hafa gengið í gegnu smá hrakningar á undirbúningstímabilinu en ég veit að þetta verður hörku leikur. Við mætum á Akureyri með kassann úti og hausinn uppi og ætlum okkur að halda áfram að bæta okkar leik og reyna hafa gaman af hlutunum."
„Ég sagði við strákana að tilhneigingin á undirbúningstímabilinu sé sú að menn séu með léttar axlir og allir glaðir. Um leið svo og þegar flautað er á, þegar alvaran byrjar eins og einhverjir vilja segja: „kemur ekkert í ljós hvernig þú ert fyrr en alvaran byrjar," þá verða menn stundum eins og hengdir upp á þráð, fara inn í sig og verða hræddir. Ég held að okkar markmið verður að vera að við látum einmitt ekki stjórnast af því að alvaran sé byrjuð; að við mætum með sama hugarfar og við höfum gert í vetur. Það er einhvers konar 'brennum skipin hugarfar'. Við erum búnir að kveikja í öllum skipum sem geta flutt okkur eitthvað annað en í það sem við erum að gera. Það er engin undankomuleið og það verður aldrei aftur snúið. Við munum reyna spila fótbolta, munum taka áhættur, munum fara hátt á lið og við munum líta illa út, en síðan gerast fallegir hlutir í kjölfarið."
„Við þurfum að halda í það og ef við náum því þá erum við góðir. Ef við ætlum að fara láta stjórnast af umhverfinu; hvernig einhverjir aðrir halda að við eigum að vera, þá verðum við í basli. Fyrir okkur snýst þetta um að halda sterkt í sjálfsmyndina okkar, með því verðum við betri eftir því sem líða tekur á tímabilið og verðum góðir. Ef ekki, þá getum við lent í sama basli og í fyrra."
„Ég hef verið í kringum þennan hóp í allan þennan tíma núna og eytt það miklum tíma með þeim að ég veit að menn eru sterkir og klárir í þetta. Við erum bara búnir að brenna skipin og það eina sem við eigum eftir að gera er að fara og keyra á þetta," sagði Óskar.
Athugasemdir