Launakostnaður Williams yrði hár fyrir Arsenal - Lucca aðalskotmark Man Utd - Tottenham vill halda Kulusevski
   fös 04. apríl 2025 10:36
Elvar Geir Magnússon
Aðeins fyrirliði á að vera í samskiptum við dómarann
Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, og Erlendur Eiríksson.
Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, og Erlendur Eiríksson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Pétur Guðmundsson dómari.
Pétur Guðmundsson dómari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Besta deildin hefst á morgun og dómaranefnd KSÍ hefur sent upplýsinga til fjölmiðla um áhersluatriði dómara fyrir þetta tímabil. Áhersluatriðin hafa verið kynnt á sérstökum fundum með fulltrúum félaga.

Áfram verður lögð áhersla á að taka á mótmælum gagnvart dómurum og þegar leikmenn hópast um dómarann. Þá er áhersla lögð á að taka á hinum ýmsu leiktöfum.

Talsvert hefur verið fjallað um hina nýju átta sekúndna reglu en um er að ræða lagabreytingu þar sem markverði er ekki heimilt að halda á knettinum lengur en í 8 sekúndur. Ef hann er dæmdur brotlegur gagnvart þessari reglu fær andstæðingurinn hornspyrnu.

Eitt af því sem er nýtt hér á Íslandi er að aðeins fyrirliða er heimilt að nálgast og vera í samskiptum við dómara en þetta hefur verið í gildi í stórum mótum í Evrópu.

Ef markvörður liðs er fyrirliði skal liðið tilnefna leikmann fyrir leik sem á að vera í samskiptum við dómara. Tilkynna verður dómara fyrir leik hver þessi leikmaður er.

„Aðeins fyrirliða er heimilt að nálgast og vera í samskiptum við dómara. Skal hann koma fram af kurteisi og háttvísi. Fyrirliði ber ábyrgð á því að aðrir leikmenn liðsins virði þessa reglu og sýni dómarateyminu virðingu," segir í áhersluatriðum dómaranefndar.

„Leikmaður annar en fyrirliðinn sem ekki fer eftir þessari reglu og nálgast dómara með mótmælum eða sýnir af sér óíþróttamannslega hegðun skal áminntur."
Athugasemdir
banner
banner