
Hlín Eiríksdóttir var í janúar frá Kristianstad í Svíþjóð til Leicester á Englandi. Hún hafði leikið mjög vel síðustu tímabil í Svíþjóð og var farin að horfa á stærra svið. Landsliðskonan ræddi um félagaskiptin og ýmislegt annað í viðtali við Fótbolta.net í gær.
„Staðan á mér er bara góð, ég lenti í smávægilegum meiðslum eftir síðasta landsliðsverkefni. Mér líður vel núna og er tilbúin að láta til mín taka gegn Noregi," sagði Hlín sem undirbýr sig sem stendur undir leikinn gegn Noregi í Þjóðadeildinni en sá leikur hefst klukkan 16:45 í dag.
„Ég er orðin 100%, þetta var stuttur tími á milli landsliðsverkefna þannig að ég náði ekki að spila mikið með Leicester, en ég er búin að vera æfa í nokkrar vikur og líður mjög vel, þannig það er ekkert vandamál."
„Lífið í Leicester er bara gott, ég er ennþá að venjast menningunni á Englandi og fótboltanum líka, getustigið er mun hærra en það sem ég er vön. Mér líst mjög vel á aðstæður og hlakka bara til að sýna mig og sann enn frekar."
„Okkur er búið að ganga nokkuð vel síðustu vikurnar, þetta var svolítið ströggl í byrjun tímabils, en síðustu vikur erum við búnar að ná í úrslit og frammistaðan er að verða betri og betri. Ég held að allt sé að fara í rétta átt og við munum byggja enn frekar á því sem við höfum verið að gera."
„Ég er búin að vera spila frammi, búið að vera svolítið um meiðsli í þeirri stöðu, þannig að ég er framherji eins og staðan er núna. Svo sjáum við til hvort það eigi eitthvað eftir að breytast í framtíðinni."
„Það eru bara fjórir leikir eftir hjá okkur og við erum að stefna á tólf stig úr þeim leikjum, það verður verðugt verkefni. Næsti leikur er á móti Arsenal. Við erum bara að stefna á að klifra eins mikið og við getum í töflunni, erum í 10. sæti og erum held ég búin að vera þar alveg síðan ég kom. Við erum svo sannarlega að horfa upp á við frekar en niður á við. Það er tækifæri að ná í tólf stig og við ætlum að reyna gera það."
Leicester getur, ef bókstaflega allt gengur upp, farið alla leið í 5. sætið en framundan eru leikir gegn Arsenal og Manchester City sem eru í efstu fjórum sætum deildarinnar en það er stórt bil milli fimmta sætisins og upp í það fjórða.
„Það hefur ekkert endilega neitt komið mér á óvart eftir komuna til Englands, ég vissi að ég væri að taka stórt stökk en deildin er virkilega sterk, mikill barningur og maður hefur lítinn tíma á boltann; ég finn alveg fyrir því að ég þarf að bregðast við því."
Var erfið ákvörðun að segja skilið við Kristianstad og hoppa á tilboðið frá Leicester?
„Leicester er draumatækifæri fyri mig, ég er búin að stefna á það síðustu ár að komast í ensku úrvalsdeildina. Þau hjá Leicester sýndu mér mikinn áhuga og það eru geggjaðar aðstæður; allt í kringum liðið er alveg topp. Það var ekki erfitt að segja já við Leicester en það var ógeðslega erfitt að fara frá Kristianstad því mér leið ógeðslega vel og fékk nákvæmlega það hlutverk sem ég vildi innan vallar. Ég var að þróast sem leikmaður og hefði haldið áfram að bæta mig. En ég mun halda áfram að bæta mig í Leicester, það var lúxusvandamál að hafa tvo góða kosti að velja um."
Það vakti athygli að Hlín skrifaði undir nýjan samning við Kristianstad skömmu áður en hún fór til Leicester. Vissiru að Leicester væri að fylgjast með þér?
„Já, ég var búin að tala aðeins við Leicester áður, en ég vissi ekki að það væri áhugi akkúrat á þeim tímapunkti og þetta væri að fara gerast í janúar. Þegar þetta gerðist þá gerðist þetta virkilega hratt. Ég vissi að þau vissu af mér og hafði talað við þjálfarann áður, en vissi ekki að þetta væri svona nálægt því að verða að veruleika. En svo gerðist það sem er geggjað."
„Ég skrifaði undir hjá Kristianstad og setti 100% einbeitingu þangað, en auðvitað var möguleiki að ég færi og ég var í sambandi við umboðsmanninn minn. Mig langaði að taka næsta skref sem fyrst, en hvort það væri að fara gerast í vetur, í sumar eða eftir tímabilið, það var ekkert sem var neglt niður í stein. En svo kom þetta upp og mig langaði að stökkva á það," sagði Hlín. Viðtalið við hana má nálgast hér að neðan.
Athugasemdir