
Þór vann öruggan 7-0 sigur á Magna í 2. umferð Mjólkurbikarsins í dag. Okkar maður í Boganum, Sigurður Bibbi Sigurðarson, tók þjálfara Þórs og tvo leikmenn liðsins tali eftir leikinn.
Lestu um leikinn: Þór 7 - 0 Magni
„Þetta var bara fínt, mikill kraftur í okkur í fyrri hálfleik og leikurinn eiginlega kláraðist þar. Svo litaðist seinni hálfleikurinn dálítið af því að leikurinn var búinn," sagði Siggi Höskulds.
„Ungu strákarnir eru búnir að spila nánast alla leiki hjá okkur í vetur og búnir að standa sig frábærlega, ég er bara hrikalega sáttur með þá," bætti þjálfarinn við.
Þeir Sverrir Páll Ingason og Einar Freyr Halldórsson, sem báðir eru fæddir 2008, voru á skotskónum í dag. Sverrir Páll var að skora sitt annað mark í meistaraflokki en Einar sitt fyrsta.
Þeir voru báðir bjartsýnir á að fá mínútur með Þórsurum í Lengjudeildinni í sumar.
Á mánudag kemur í ljós hvaða liði Þór mætir í næstu umferð en þá verður dregið í 32-liða úrslit keppninnar.
Athugasemdir