Fjórar efnilegar fótboltastúlkur voru að skrifa undir sína fyrstu samninga við Stjörnuna og má þar helst nefna Eriku Ýr Björnsdóttur sem á þrjá leiki að baki fyrir U15 landslið kvenna.
Erika Ýr er fædd 2009 og mun reyna fyrir sér með U16 landsliðinu í ár. Henni er lýst sem miðjumanni með góðan leikskilning, líkamlegan styrk og tækni.
Hún spilaði ellefu leiki með Álftanesi í Lengjudeild kvenna í fyrra og skoraði í þeim eitt mark. Búast má við að hún verði í lykilhlutverki með Álftanesi í sumar.
Nanna Lilja Guðfinnsdóttir er einnig búin að skrifa undir samning en hún er fædd 2006 og hefur spilað 41 deildarleik fyrir Álftanes á ferlinum. Hún er fyrirliði Álftnesinga og lykilleikmaður og mun spila áfram fyrir liðið í sumar.
Nanna leikur sem bakvörður og spilaði sína fyrstu leiki fyrir meistaraflokk Stjörnunnar í vetur, auk þess að standa sig vel með liðinu í æfingaferð.
Kara Sigríður Sævarsdóttir er fædd 2009. Hún leikur sem miðvörður og hefur verið í landsliðsúrtökum en ekki spilað keppnisleik fyrir yngri landsliðin.
Hún á tíu deildarleiki að baki fyrir Álftanes og mun leika áfram fyrir liðið í sumar.
Að lokum gerði Tinna María Heiðdísardóttir samning við Stjörnuna en hún er fædd 2010 og leikur sem markvörður.
Hún á einn leik að baki fyrir U15 og U16 landsliðin og spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik í vetur. Hún hélt þá hreinu í 5-0 sigri Stjörnunnar gegn FHL í Lengjubikar kvenna.
Athugasemdir