Launakostnaður Williams yrði hár fyrir Arsenal - Lucca aðalskotmark Man Utd - Tottenham vill halda Kulusevski
   fim 03. apríl 2025 22:45
Ívan Guðjón Baldursson
Postecoglou: VAR er að drepa leikinn
Mynd: EPA
Ange Postecoglou var ekki sáttur eftir tap gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Hann kvartaði sérstaklega undan VAR að leikslokum.

VAR var í aðalhlutverki í kvöld þar sem eitt mark var tekið af hvoru liði í seinni hálfleik. Fyrst var Levi Colwill í rangstöðu þegar Chelsea virtist tvöfalda forystuna áður en Pape Matar Sarr hélt hann hefði jafnað leikinn einungis til að vera dæmdur brotlegur í aðdragandanum.

Báðar ákvarðanirnar tóku mjög langan tíma svo bæta þurfti 12 mínútum við venjulegan leiktíma.

„VAR er að drepa leikinn, þetta er ekki sami leikur og áður fyrr. Við sátum í sófunum okkar og horfðum á leikinn í gær og ég get lofað ykkur því að útkoman hefði verið önnur með Jarred Gillett í VAR-herberginu," sagði Postecoglou, og átti þar við hættuspark James Tarkowski. Hann var heppinn að sleppa við að fá rautt spjald eftir samskipti við Alexis Mac Allister í slagnum um Bítlaborgina.

„Þetta ósamræmi í dómgæslunni er óþægilegt. Við vitum aldrei hvað við munum fá. Í kvöld þá stóðum við bara og gerðum ekki neitt í tólf mínútur. Þetta er að drepa leikinn en öllum virðist vera sama um það.

„Ef dómarinn sér atvikið með sínum eigin augum og þarf svo aðrar sex mínútur fyrir framan sjónvarp til að ákveða sig, hvað er svona augljóst við þetta? Það ætti ekki að þurfa nema eina endursýningu til að úrskurða um 'augljós mistök'."

Athugasemdir
banner
banner