Mbeumo, Wirtz, Diomande, Quenda, Nypan, Van Nistelrooy, Cherki og fleiri góðir í slúðri dagsins
   sun 01. september 2019 21:05
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pepsi Max-deildin: Blikar að lokum heppnir - Komust í 4-0
Breiðablik vann að lokum 4-3.
Breiðablik vann að lokum 4-3.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Castillion gerði þrennu.
Castillion gerði þrennu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik 4 - 3 Fylkir
1-0 Andri Rafn Yeoman ('9 )
2-0 Höskuldur Gunnlaugsson ('10 )
3-0 Thomas Mikkelsen ('38 )
4-0 Alfons Sampsted ('47 )
4-1 Geoffrey Wynton Mandelano Castillion ('64 )
4-1 Geoffrey Wynton Mandelano Castillion ('73 , misnotað víti)
4-2 Geoffrey Wynton Mandelano Castillion ('75 )
4-3 Geoffrey Wynton Mandelano Castillion ('91)
Rautt spjald:Viktor Örn Margeirsson , Breiðablik ('72)
Lestu nánar um leikinn

KR þarf að bíða aðeins lengur eftir að Íslandsmeistaratitilinn verði tryggður. Breiðablik lagði Fylki að velli í sjö marka fótboltaleik á Kópavogsvelli í kvöld.

Blikar settu tóninn strax þegar Andri Rafn Yeoman skoraði á níundu mínútu. Nokkrum sekúndum síðar var Höskuldur Gunnlaugsson búinn að skora annað markið.

„Það held ég. Viktor Örn finnur Höskuld inn í teig Fylkismanna. Höskuldur fer á hægri fótinn og setur svo boltann í nærhornið með miklum krafti. Vel gert hjá Blikum," skrifaði Þorgeir Leó Gunnarsson þegar Höskuldur skoraði.

Fylkismenn spiluðu ekki góðan varnarleik í fyrri hálfleiknum. Thomas Mikkelsen hefur verið frábær að undanförnu og hann skoraði þriðja mark Blika á 38. mínútu. Staðan í hálfleik var 3-0 fyrir grænklædda heimamenn.

Helgi Sigurðsson gerði tvöfalda breytingu í hálfleik, en það hjálpaði lítið til í byrjun seinni hálfleiks. Alfons Sampsted skoraði fjórða mark Breiðabliks á 47. mínútu.

Fylkismenn virtust aðeins vakna til lífsins þegar leið á seinni hálfleikinn. Geoffrey Castillion minnkaði muninn á 64. mínútu og fékk Fylkir vítaspyrnu nokkrum mínútum síðar þegar Viktor Örn Margeirsson sló til Ragnars Braga Sveinssonar. Viktor fékk að líta beint rautt spjald fyrir vikið.

Castillion fór á punktinn en gamli maðurinn í markinu, Gunnleifur Gunnleifsson, sá við honum. Geoffrey bætti upp fyrir vítaklúðrið með öðru marki sínu stuttu síðar.

Castillion var ekki hættur og fullkomnaði hann þrennu sína í uppbótartímanum. Fylkismenn voru ekki langt frá því að jafna metin undir lokin - þeir voru rosalega nálægt því. En Blikar sluppu með skrekkinn og stigin þrjú.

Lokatölur 4-3. Breiðablik er í öðru sæti með 36 stig og Fylkir í níunda sæti með 25 stig.
Athugasemdir
banner
banner