Kristján Finnbogason ákvað í síðustu viku að leggja skóna á hilluna eftir langan og farsælan feril. 26 ár eru síðan Kristján spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik en síðan þá hefur hann orðið sjö sinnum Íslandsmeistari og fimm sinnum bikarmeistari. Magnús Már Einarsson settist niður með Kristjáni og fór yfir feril hans.
Innkastið er nýr hljóðvarpsþáttur sem finna má á Fótbolta.net. Þar verður kafað aðeins dýpra í hlutina og rætt um fótbolta á mannamáli.
„Ég er búinn að taka þá ákvörðun að hætta og hún er staðfest hjá ykkur. Þá er þetta staðfest. Ég fór yfir þetta með félaga mínum í FH í sumar og ég hef líklega verið 6000 klukkutíma á æfingum á ferlinum," sagði Kristján í viðtalinu en þar fer hann yfir langan feril sinn og tekur hvert ár fyrir.
Kristján lék lengst af á sínum ferli með KR en hann spilaði einnig með ÍA, Fylki, Gróttu og FH sem og í nokkrar vikur í Skotlandi og Belgíu.
Fullorðnir karlmenn grétu
Kristján var í liði KR árið 1999 þegar liðið varð Íslandsmeistari á ný eftir 31 árs bið. „Ég held að það hafi margir fullorðnir menn grátið á þessum tíma. Þetta var hápunkturinn á ferlinum og sætasti titillinn," segir Kristján þegar hann rifjar þann titil upp.
KR varð aftur meistari árið 2000 en árið 2001 var liðið hársbreidd frá því að falla niður í 1. deild. Árið 2002 varð KR aftur Íslandsmeistari á dramatískan hátt. KR burstaði Þór í lokaumferðinni á sama tíma og Fylkir tapaði gegn ÍA.
„Fyrri titillinn sem við unnum með Willum var mjög sætur. Þegar þyrlan flaug frá skaganum með bikarinn sem Fylkir hafði ætlað að sækja. Maður vissi hvað var að gerast þegar maður heyrði að skaginn var 2-0 yfir gegn Fylki. Mesta rushið var síðan þegar þyrlan kom með bikarinn."
Hélt að Willum væri að deyja
Árið eftir tryggði KR sér aftur titilinn og þá á öruggari hátt. Liðið tapaði hins vegar 7-0 gegn FH í lokaumferðinni.
„Þetta var hneysa og algjör skandall. Þegar við sátum inn í klefa eftir leik þá héldum við að Willum væri að deyja. Hann öskraði og gargaði stanslaust í hálftíma. Maður sá æðar og allskonar út tútna út í hausnum á honum."
„Þegar hann hafði lokið sér af og við sátum í klefanum þá sagði Arnar Gunnlaugsson: 'Strákar, við erum Íslandsmeistarar, for fuck sake.' Næstu ár eftir þetta kom hins vegar svolítil ládeyða í KR."
Spilaði frammi
Kristján spilaði ekki bara í marki á ferlinum því hann fékk að spila nokkrar mínútur frammi í lokaumferðinni í 2. deildinni með Gróttu árið 2009 sem og í Fótbolta.net mótinu með FH árið 2014. Þá skoraði Kristján einnig í deildabikarleik með KR snemma á ferlinum þegar hann fékk að spila frammi.
„Mig langaði aldrei að vera markvörður, í hreinskilni. Það var mikil orka í mér og það var alltaf draumur minn að vera útispilari. Þegar ég var kominn í U16 ára landsliðið var ekki hægt að bakka úr markinu. Fram að því hafði ég verið meira og minna í marki en ég hafði líka verið aðeins úti," sagði Kristján sem hefur af og til fengið að vera frammi á æfingum í gegnum tíðina.
„Mér finnst það fínt fyrir markverði. Sérstaklega daginn eftir leik. Þá er maður lúinn eftir leikinn en vill hlaupa. Það er alltaf gott fyrir markverði að vera í senter sporunum."
Viðtalið má heyra í heild sinni í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir