William Saliba, Cristian Romero, Lamine Yamal og fleiri koma við sögu í pakkanum
   fim 05. september 2024 10:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Leiðinlegt að dómarinn hafi ekki verið með sterkari haus"
Hólmar Örn.
Hólmar Örn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sigurður Hjörtur var búinn að lyfta rauðu spjaldi fyrr í leiknum.
Sigurður Hjörtur var búinn að lyfta rauðu spjaldi fyrr í leiknum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valsmenn komust í 0-2 í Víkinni.
Valsmenn komust í 0-2 í Víkinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Túfa hefur komið með góða punkta og mikla ástríðu inn í þetta hjá okkur. Það er eitthvað sem við þurfum að nýta okkur'
'Túfa hefur komið með góða punkta og mikla ástríðu inn í þetta hjá okkur. Það er eitthvað sem við þurfum að nýta okkur'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta byrjar á því að ég á lélega snertingu, geri mistök í því að eiga of langa snertingu. Svo kemur þessi hálf-tækling, sem var eiginlega ekki tækling yfir höfuð, þetta er aldrei meira en gult spjald. Það eru því miður hreinar línur, það er engin útrétt löpp, engin sóli sem fer í ökkla eða neitt. Þetta er bara klafs, gult spjald og áfram með leikinn," segir Hólmar Örn Eyjólfsson, fyrirliði Vals, í samtali við Fótbolta.net.

Hólmar fékk rauða spjaldið í seinni hálfleik þegar Valur heimsótti Víking á sunnudag. Staðan í leiknum var 0-2 Val í vil þegar Hólmar fékk rauða spjaldið en lokatölur urðu 3-2 fyrir heimamenn í Víkingi.

„Víkingarnir voru tuðandi í dómaranum allan leikinn, mér finnst pínu leiðinlegt að dómarinn hafi ekki verið með sterkari haus en það að láta undan pressunni. Það er pínu svekkjandi."

„En að sama skapi, þá er þetta bara mannlegur hlutur, dómarar gera mistök eins og ég, ég gerði mistök í þessu atviki með því að taka of þunga snertingu og dómarinn gerir svo mistök í því að gefa mér rautt spjald."


Þeim mun meira svekkjandi
Hólmar gat ekki spilað síðasta hálftímann í leiknum gegn Víkingi og verður í banni gegn KR í lokaumferðinni fyrir tvískiptingu. Valur er í 3. sæti deildarinnar, 11 stigum á eftir toppsætinu þegar sex umferðir eru eftir og með þriggja stiga forskot á FH sem situr í 4. sæti.

Efstu þrjú sætin í deildinni tryggja sér sæti í Evrópukeppnum á næsta ári. Það fer svo eftir bikarúrslitaleiknum hvort að 4 .sætið veiti sæti í Evrópukeppni á næsta ári eða ekki; ef KA vinnur bikarinn þá fer KA í Evrópukeppni, en ef Víkingur vinnur bikarinn og endar í einu af efstu þremur sætunum, þá fer liðið í 4. sæti líka í Evrópukeppni.

Hólmar var spurður út í stöðu Vals. Í síðustu ellefu deildarleikjum hefur Valur einungis unnið fjóra sigra og liðið féll einnig úr leik í bikarnum.

„Staðan er ekki nógu góð, það eru margir leikir sem við getum horft til baka og sagt að við höfum ekki staðið okkur nógu vel í."

„Við erum langt frá þeim stað sem við viljum vera á og teljum okkur geta verið á. Auðvitað er þá þessi leikur gegn Víkingi þeim mun meira svekkjandi; vera komnir í 2-0, svo kemur þessi ranga ákvörðun að senda mig út af og Víkingar ganga á lagið. Sigur hjá okkur hefði getað fleytt spennu í mótið og úrslitakeppnin framundan þar sem bestu liðin mætast innbyrðis."


Verða að vera tilbúnir ef liðin misstíga sig
Er úr þessu horft í að tryggja Evrópusæti, eða halda menn enn í vonina að efstu tvö liðin renni á rassinn?

„Það er lítið hægt að gera sér vonir um það. Við einbeitum okkur bara að okkur sjálfum og að vinna næsta leik á móti KR. Það svo sem getur allt gerst, bestu liðin eru að spila innbyrðis hverja helgi, og það getur allt gerst, og við þurfum að ganga úr skugga um það að við höldum rétt á spilunum og spilum góða leiki. Ef einhver misstígur sig þá verðum við að vera tilbúnir að stökkva á það."

Finnst skilaboðin frá Túfa vera skila sér
Arnar Grétarsson var látinn fara frá Val 1. ágúst og var Srdjan Tufegdzic, Túfa, ráðinn í hans stað. Túfa hefur stýrt liðinu í síðustu sex leikjum. Tekur Hólmar eftir einhverjum breytingum sem hafa orðið eftir þjálfarabreytinguna?

„Þetta eru ólíkir karakterar, nálgast leikinn aðeins öðruvísi og hafa báðir sína kosti. Túfa er aðeins meira að koma inn hjá okkur ákveðinni ákefð sem við þurfum líka á að halda. Mér finnst þau skilaboð vera að skila sér ágætlega. Eins með varnarleik, ákveðin atriði í okkar leik sem við þurfum að skerpa á. Túfa hefur komið með góða punkta og mikla ástríðu inn í þetta hjá okkur. Það er eitthvað sem við þurfum að nýta okkur," segir Hólmar.

Valur mætir KR 16. september og eftir það tekur við fimm leikja úrslitakeppni.
Innkastið - Víkingur vann veika Valsmenn og spjót beinast að Túfa
Besta-deild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Breiðablik 22 15 4 3 53 - 28 +25 49
2.    Víkingur R. 21 14 4 3 50 - 23 +27 46
3.    Valur 21 10 5 6 49 - 32 +17 35
4.    ÍA 22 10 4 8 41 - 31 +10 34
5.    Stjarnan 22 10 4 8 40 - 35 +5 34
6.    FH 22 9 6 7 39 - 38 +1 33
7.    Fram 22 7 6 9 31 - 32 -1 27
8.    KA 22 7 6 9 32 - 38 -6 27
9.    KR 21 5 6 10 34 - 42 -8 21
10.    HK 22 6 2 14 26 - 56 -30 20
11.    Vestri 22 4 6 12 22 - 43 -21 18
12.    Fylkir 21 4 5 12 26 - 45 -19 17
Athugasemdir
banner
banner
banner