Heimild: Dr. Football
Valsarar misstigu sig á heimavelli gegn Vestra í gær í 1. umferð Bestu deildarinnar. Valsarar sköpuðu sér talsvert af möguleikum til að skora en náðu einungis að skora eitt mark, sem var glæsilegt mark frá Patrick Pedersen eftir laglegan undirbúning frá Aroni Jóhannssyni og Tryggva Hrafni Haraldssyni.
Mark Valsara var jöfnunarmark eftir slysalegt sjálfsmark Orra Sigurðar Ómarssonar í upphafi seinni hálfleiks.
Mark Valsara var jöfnunarmark eftir slysalegt sjálfsmark Orra Sigurðar Ómarssonar í upphafi seinni hálfleiks.
Lestu um leikinn: Valur 1 - 1 Vestri
Valsararnir Arnar Sveinn Geirsson og Jóhann Már Helgason voru gestir í hlaðvarpsþættinum Dr. Football þar sem leikurinn var til umræðu.
„Að sjálfsögðu eru úrslitin sjokk, jafntefli á móti Vestra á heimavelli er ekki í lagi. Valur fær samt þrjú dauðafæri á fyrstu sjö mínútunum, ef þú skorar eitt mark þá er þessi leikur búinn," sagði Arnar Sveinn, sem er fyrrum leikmaður Vals, og hélt áfram.
„Markið sem við fáum á okkur er eitthvað trúðamark, Vestri var aldrei að fara skora úr opnum leik að öðru leyti. Ef allt er eðlilegt þá hefði þessi leikur unnist, miðað við færin."
„Hins vegar er ég mjög ósáttur við spilamennsku Vals og uppleggið. Fyrir mig að horfa á þetta var mjög augljóst að Vestri gaf bara kantana, ýttu Völsurum inn á miðjuna. Við sáum það sama á móti Fylki og ÍR í Lengjubikarnum. Það er ofboðslega fyrirsjáanlegt hvað Valur ætlar að gera, öllu þrýst inn á miðjuna og vængirnir opnir."
„Ef ég hefði verið í klefanum í hálfleik hefði ég sagt að við ættum að fara í gamla góða 4-3-3, setjum Sigga (Sigurð Egil Lárusson) í bakvörðinn, tvöföldum á köntunum og sjáum hvað gerist."
Jóhann Már sagði að vandamál Valsara hefðu verið þau að Birkir Heimisson og Tómas Bent Magnússon hefðu ekki fundið neinar sendingar af miðjunni í gegnum varnarlínur Vestra. „Langhættulegasti leikmaður Vals í þessum leik var Jónatan Ingi, hann þurfti að prjóna sig í gegnum 2-3 einn og persónulega til að koma sér í færi. Það var ekki í flæði. Aron kom svo inn djúpur og nær þessari sendingu sem skapar markið."
Þáttarstjórnandi Hjörvar Hafliðason benti á að Aron hefði eftir þessa heppnuðu sendingu ætlað sér að reyna svipaða sendingu í hvert einasta skipti sem hann fékk boltann.
Eiður Aron Sigurbjörnsson fékk mikið hrós fyrir sína frammistöðu og sömuleiðis var markmönnunum; Guy Smit og Stefáni Þór Ágústssyni, hrósað. Arnar Sveinn var á því að það gæti orðið erfitt fyrir Ögmund Kristinsson að komast aftur inn í Valsliðið.
Athugasemdir