Arteta var líflegur á hliðarlínunni þegar lið hans, Arsenal, vann grannaslaginn gegn Chelsea á Stamford Bridge í dag.
Arteta fékk að hreyfa sig full frjálslega að mati Richard Keys sem starfar hjá Bein Sport. Hann setti mynd af Arteta á Twitter þar sem spænski stjórinn er kominn langt frá varamannabekk Arsenal og nánast kominn yfir til Graham Potter, stjóra Chelsea.
Í færslunni sendir hann fyrirspurn á dómarasambandið og spyr hvers vegna Arteta komist upp með þetta.
„Hann er búinn að vera hoppandi og skoppandi allan leikinn langt fyrir utan sitt svæði. Potter er á sínum stað og fjórði dómarinn horfir á, gerðu eitthvað í þessu maður," skrifar Richard á Twitter.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann skrifar svona um Arteta. Hann hefur tvisvar áður skrifað svipað á Twitter þar sem hann kvartar undan hegðun Arteta og aðgerðarleysi dómarana.