Pep Guardiola þjálfari Manchester City ræddi við fréttamenn eftir 0-2 tap á heimavelli gegn toppliði Liverpool í ensku úrvalsdeildinni.
Man City var án lykilleikmanna vegna meiðsla og mætti til leiks með ungt lið en sýndi flotta frammistöðu. Liverpool var þó hættulegra liðið og verðskuldaði sigurinn, en Guardiola er ekki viss um að þessi leikur hefði farið eins ef fleiri leikmenn væru heilir.
„Það vantaði gæðin í lokasendinguna hjá okkur. Við komumst í góðar stöður og það vantaði oft lítið uppá til að við myndum komast í dauðafæri. Við vorum með ungt lið á vellinum og gerðum marga hluti mjög vel," sagði Guardiola.
„Ég veit ekki hvernig þessi leikur hefði farið ef allir væru heilir. Ég veit ekki hvort Liverpool gæti unnið úrvalsdeildina ef við hefðum ekki lent í þessum meiðslavandræðum. Þeir eru með stórkostlegt lið en þeir hafa ekki lent í neinum meiðslavandræðum og það er ástæðan fyrir þessari mögnuðu velgengi á tímabilinu. Þannig er það bara, maður getur ekki alltaf fengið það sem maður vill.
„Ég vil ekki segja að við hefðum unnið í dag ef Erling Haaland hefði verið með því það er ósanngjarnt gagnvart þeim leikmönnum sem spiluðu leikinn og lögðu allt í sölurnar. Auðvitað erum við betra lið með Erling, Rodri, Stones, Akanji og aðra leikmenn innanborðs."
Man City er í fjórða sæti úrvalsdeildarinnar og er í harðri baráttu við Nottingham Forest, Newcastle, Bournemouth, Chelsea, Aston Villa og Brighton um Meistaradeildarsæti.
„Það verður erfitt að vinna baráttuna um Meistaradeildarsæti en við getum gert það. Ég er mjög stoltur af sigrinum gegn Newcastle."
Athugasemdir