Man Utd hefur áhuga á Son og Pavlovic - De Bruyne færist nær Bandaríkjunum - Ancelotti vill Branthwaite
   sun 23. febrúar 2025 23:30
Ívan Guðjón Baldursson
Clement rekinn frá Rangers (Staðfest)
Mynd: EPA
Rangers hefur ákveðið að reka Philippe Clement úr þjálfarasætinu eftir 16 mánuði við stjórnvölinn. Gengi félagsins hefur ekki verið nægilega gott heimafyrir þrátt fyrir flottan árangur í Evrópudeildinni.

Rangers tapaði heimaleik gegn St. Mirren í gær og var það annar heimaleikurinn í röð sem tapaðist eftir að hafa verið afar óvænt slegnir úr leik í bikarnum á heimavelli.

Rangers er 13 stigum á eftir Celtic í skosku titilbaráttunni og getur því hvorki unnið deildina né bikarinn í ár. Liðið er aðeins að keppast um Evrópudeildina og þykir það ekki nægilega gott fyrir stjórnendur og stuðningsmenn félagsins. Clement hefur því verið rekinn.

Stjórnendur Rangers taka þessa ákvörðun aðeins nokkrum vikum eftir ráðningu á Issame Charai sem aðstoðarþjálfara.

Talið er að Barry Ferguson, sem er goðsögn hjá Rangers, verði ráðinn sem bráðabirgðaþjálfari liðsins út tímabilið. Ferguson þjálfaði síðast Alloa Athletic fyrir þremur árum en hann spilaði rétt tæplega 250 keppnisleiki fyrir Rangers á sínum tíma og bar fyrirliðaband félagsins í sjö ár.

Clement er því orðinn samningslaus en hann hefur þjálfað Beveren, Genk og Club Brugge í heimalandi sínu Belgíu áður en hann var ráðinn til Mónakó og svo til Rangers.
Athugasemdir
banner
banner