Breiðablik vann KR 1-0 í 15. umferð Pepsí-deildar karla á Kópavogsvelli í kvöld og eru komnir í fyrsta sæti deildarinnar. Oliver Sigurjónsson leikmaður Breiðabliks sagði að þetta hefðu verið gríðarlega mikilvæg þrjú stig þótt leikurinn hefði verið hundleiðinlegur fyrir áhorfendur.
Lestu um leikinn: Breiðablik 1 - 0 KR
„Mér fannst við ágætir í fyrri hálfleik en í seinni hálfleik var mikil barátta og þeir aðeins með yfirhöndina en við náum að setja þetta mark og það er það sem skiptir máli í fótbolta. Þetta var örugglega ógeðslega leiðinlegur leikur að horfa á."
Alexander Helgi Sigurðarson kom inná í sínum fyrsta leik eftir að hafa komið aftur frá Víkingi Ólafsvík þar sem hann var á láni og skoraði sigurmarkið. Oliver segir frábært að fá svona góðan leikmann aftur.
„Frábært, við misstum Kolla út núna og ég var aðeins tæpur fyrir leikinn þannig að það er mjög mikilvægt fyrir Blika að fá hann tilbaka. Hann er frábær leikmaður og ef ekki væri fyrir hann værum við kannski bara með eitt stig í kvöld."
Breiðablik eru núna á toppi Pepsí-deildarinnar og í undanúrslitum Mjólkurbikarsins og Oliver sagði það ekkert laumungarmál að þeir vilji vinna titla.
„Það er góð spurning, við förum í alla leiki til að vinna, gamla góða klisjan. Okkur langar að gera hluti og það er ekkert að því að vilja það, við erum í tveim keppnum og langar í titil svo jú við ætlum að keyra á þetta!"
Athugasemdir