Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
   fös 12. júlí 2024 14:23
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viktor Karl: Níu mínútna fíaskó en kassinn er úti
'Mér líður mjög vel og það kannski endurspeglast í frammistöðu'
'Mér líður mjög vel og það kannski endurspeglast í frammistöðu'
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
'Alltaf gaman að skora og kannski aðeins extra í Evrópu'
'Alltaf gaman að skora og kannski aðeins extra í Evrópu'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísak lagði upp markið fyrir Viktor.
Ísak lagði upp markið fyrir Viktor.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Við erum allir á því að við förum á Kópavogsvöll til þess að vinna seinni leikinn og fara áfram'
'Við erum allir á því að við förum á Kópavogsvöll til þess að vinna seinni leikinn og fara áfram'
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Breiðablik tapaði 3-2 gegn norður-makedónska liðinu Tikves í fyrri leik liðanna í forkeppni Sambandsdeildarinnar í gær. Leikurinn fór fram á þjóðarleikvanginum í Skopje og eftir sex daga mætast liðin aftur á Kópavogsvelli.

Sigurvegarinn í einvíginu kemst áfram í 2. umferð forkeppninnar. Viktor Karl Einarsson, leikmaður Breiðabliks, ræddi við Fótbolta.net í dag.

Lestu um leikinn: Tikves 3 -  2 Breiðablik

„Þetta var frábær fyrri hálfleikur, fannst við miklu betri í fyrri hálfleiknum, endalaust af svæði til að spila í og gekk feikilega vel að skapa góðar stöður. Við skoruðum tvö góð mörk," segir Viktor.

„Það var lítið að gerast í leiknum fram að fyrsta markinu þeirra. Þá snýst þetta, snerist aðeins hraðar en maður átti von á."

„Ég er enn að ná utan um þetta. Þeir skora ágætis mark, eitthvað sem var ekki í kortunum. 1-2 var svo sem allt í góðu, fín staða. Svo kemur einhver langur bolti, mér fannst brotið á (Arnóri) Gauta í því augnabliki. Þeir fá aukaspyrnu og það verður draumaaukaspyrna. Svo var þetta komið út í smá bull hjá okkur, vorum ekki alveg nógu skipulagðir, ætluðum að skora þrjú mörk í hverri sókn og fáum á okkur þetta þriðja mark sem var algjör óþarfi."

„Mörkin sem þeir skora voru mjög góð, vel útferð og góð slútt. Kannski lítið hægt að gera í því. En það sem maður er mest svekktur með er skipulagið á okkur eftir að við vorum í 0-2 og eftir að þeir minnka muninn. Við hefðum átt að draga andann aðeins dýpra og slaka aðeins á."


Frábærar aðstæður
Það var mjög hlýtt í Skopje í gær, um 30 stiga hiti. Hvernig varstu að fíla þig í þessum aðstæðum?

„Þetta var bara mjög gott, hitinn var bara bærilegur og ekkert við hann eða völlinn að sakast. Aðstæður voru bara frábærar, geggjað gras og hitastigið var frábært á meðan leik stóð."

Viktori fannst staðan 0-2 í hálfleik vera verðskulduð. „Þeir byrjuðu sterkt, við töpuðum boltanum og þeir komust í skyndisókn og ná lausum skalla á markið. Það var vakning fyrir okkur, en svo spiluðum við mjög vel og manni leið mjög vel með stöðuna í hálfleik. Við höfðum öll tök á leiknum."

Hrikalega góð tilfinning
Er öðruvísi tilfinning að skora mark í Evrópuleik?

„Það er hrikalega góð tilfinning. Alltaf þegar maður skorar þá einhvern veginn gleymir maður hvað gerðist. Ég er búinn að sjá þetta aftur og Ísak gerir hrikalega vel. Ég sá mikið pláss, tók sprettinn á nærstöngina og næ að skora. Maður pælir ekkert rosalega mikið í þessu. Alltaf gaman að skora og kannski aðeins extra í Evrópu."

Settu betri leikmenn inn á
Blikar gerðu þrefalda breytingu eftir um klukkutíma leik.

„Við breyttum aðeins skipulaginu. En svo fannst mér þeir reyndar skipta inn betri leikmönnum heldur en byrjuðu leikinn. Þeir settu inn framherja sem skapaði usla í öllum mörkunum. Það kom líka inn miðjumaður sem mér fannst mjög góður. Skiptingarnar þeirra breyttu öllu hjá þeim."

Kassinn úti
Viktor er á því að Breiðablik geti vel unnið Tikves á heimavelli og farið áfram í næstu umferð.

„Alveg klárt. Við erum allir á því að við förum á Kópavogsvöll til þess að vinna seinni leikinn og fara áfram. Það er ekki spurning. Miðað við þennan leik erum við held ég allir með kassann úti og ætlum að vinna þá á Kópavogsvelli. Þetta er ekki þannig að maður sé eitthvað þvílíkt áhyggjufullur af því að niðurstaðan er tap. Þetta var smá fíaskó þessar níu mínútur, en við erum klárlega með kassann úti."

Aðalatriðið að manni líði vel
Viktor hefur byrjað tímabilið vel, verið einn af bestu mönnum Breiðabliks, ef ekki sá besti, það sem af er móti.

„Ég veit ekki hvort ég finni fyrir einhverri breytingu. Ég er með traust bæði frá þjálfarateyminu og leikmönnum. Ég held að það geti komið mönnum mjög langt að vita af trausti frá mönnunum í kring. Mér líður mjög vel og það kannski endurspeglast í frammistöðu. Ég held að það sé aðalatriðið, að manni líði vel," segir Viktor Karl.

Smelltu hér til að sjá fyrra mark Blika

Smelltu hér til að sjá seinna markið

Seinni leikur Breiðabliks og Tikves fer fram á Kópavogsvelli næsta fimmtudag og verður flautað til leiks klukkan 19:15.
Athugasemdir
banner
banner
banner