Raphinha og Camavinga til Manchester - Thuram til ensks toppliðs - Newcastle með plan ef Isak fer
   mið 12. október 2022 15:10
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Frappart fær stórt verkefni um helgina þrátt fyrir leikinn í gær
Stephanie Frappart.
Stephanie Frappart.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Það er ekki nóg með að Stephanie Frappart muni dæma á HM í Katar í vetur, þá mun hún dæma stóran leik í frönsku úrvalsdeildinni um helgina.

Frappart hefur verið valin besti kvendómari heims þrjú síðustu ár en margir telja að hún hafi hreinlega 'flautað Ísland úr leik' í gær er við spiluðum við Portúgal í umspilinu fyrir HM.

Frappart fór þrisvar í VAR skjáinn í leik sem var uppfullur af umdeildum atvikum. Skömmu eftir að mark var dæmt af Íslandi fékk Portúgal víti og Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir var rekin af velli.

Hún virkaði gríðarlega óörugg í leiknum. Hún dæmdi Portúgal annað víti, sem var glórulaus dómur, en tók svo dóminn til baka eftir að hafa farið í skjáinn.

„Hreinskilið finnst mér vandræðalegt að hún eigi að vera besti kvendómari í heimi ef hún þarf að fara í skjáinn yfir öllum vafaatriðum sem gerast í leiknum. Mér finnst það bara lélegt," sagði Glódís Perla Viggósdóttir, varnarmaður Íslands, eftir leikinn í gærkvöldi en henni fannst Frappart ekki höndla verkefnið vel. Hún var klárlega ekki á sínum besta degi í gær, alls ekki.

Um helgina fær hún stórt verkefni því hún dæmir leik Rennes og Lyon í úrvalsdeild karla í Frakklandi, en þetta eru tvö lið sem eru að stefna á það að komast í Evrópukeppni.

Frappart hefur afrekað margt á dómaraferli sínum. Hún var fyrsta konan til að dæma UEFA Ofurbikar karla, leik í Meistaradeild karla og þá dæmdi hún franska bikarúrslitaleikinn í karlaflokki fyrr á þessu ári.

Sjá einnig:
Sjáðu atvikið: Áslaug Munda rekin af velli - „Það er verið að eyðileggja leikinn"


Athugasemdir
banner
banner