Isak, Tuchel, Sesko, Amorim, Rabiot, Branthwaite og fleiri góðir í slúðrinu í dag
   mán 14. mars 2022 09:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Skrifar
Vangaveltur um Andra Lucas Guðjohnsen
Andri kom sterkur inn í landsliðið á síðasta ári.
Andri kom sterkur inn í landsliðið á síðasta ári.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Er ekki best að prófa bara eitthvað nýtt?
Er ekki best að prófa bara eitthvað nýtt?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Andri og bróðir hans, Sveinn Aron, á landsliðsæfingu.
Andri og bróðir hans, Sveinn Aron, á landsliðsæfingu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sóknarmaðurinn Andri Lucas Guðjohnsen var einn af jákvæðu punktunum hjá íslenska karlalandsliðinu í fyrra.

Hann var óvænt valinn í hópinn síðasta sumar en kom sterkur inn og náði að skora tvö mörk í sex A-landsleikjum.

Það er þó ekki annað hægt að segja en að þetta tímabil hafi verið mikil vonbrigði fyrir Andra.

Andri Lucas ólst upp að mestu leyti á Spáni og var í unglingaliðum Barcelona en fór svo í Espanyol. Hann gat árið 2018 valið á milli Barcelona og Real Madrid. Hann valdi Real Madrid og þar er hann enn í dag. Hann er hluti af varaliði Madrídinga og þar er hann ekki í stóru hlutverki.

Varalið Real spilar í C-deildinni á Spáni. Þar hefur Andri alls spilað 485 mínútur á þessu tímabili. Hann hefur komið við sögu í 18 leikjum en aðeins byrjað fjóra þeirra. Á þessum 485 mínútum hefur hann skorað tvö mörk.

Aðrir á þessum tímapunkti
Andri er orðinn tvítugur. Ef hann er borinn saman við aðra öfluga framherja á þessum tímapunkti, þá er það svolítið áhyggjuefni.

Ef við tökum framherja út í heimi. Erling Braut Haaland er umtalaður. Hann er á sama aldursári og Andri. Haaland hefur raðað inn mörkum frá 2018 þegar hann lék með Molde í Noregi. Hann fór til Salzburg í Austurríki þar sem hann skoraði 16 mörk í 14 leikjum og er hann núna hjá Dortmund.

Tökum aðeins vægara dæmi. Patrik Schick, sem er búinn að skora fleiri mörk en Haaland í þýsku úrvalsdeildinni á þessu tímabili. Hann er í dag 26 ára. Fyrir fimm árum síðan skoraði hann ellefu mörk í 32 leikjum með Sampdoria í ítölsku úrvalsdeildinni. Til þess að fá það skref, þá fór hann á láni Bohemians 1905 í Tékklandi þar sem hann fékk að spila reglulega. Í dag er hann einn heitasti framherji Evrópu.

Faðir Andra, Eiður Smári Guðjohnsen, er einn besti fótboltamaður sem við Íslendingar höfum átt. Í kringum tvítugsaldurinn tók hann skref til baka eftir erfið meiðsli, kom til Íslands og fór síðan til Bolton þar sem hann sló í gegn.

Það eru að sjálfsögðu alls konar dæmi til í heiminum en þeir bestu voru flestir að spila reglulega í kringum tvítugsaldurinn. Það gengur ekki endalaust að sitja á bekknum og hvað þá í spænsku C-deildinni.

Annað umhverfi?
Andri meiddist illa árið 2020 og gerði vel að koma til baka eftir það. En núna þarf hann að fara að spila reglulega á góðu stigi því þarna er virkilega spennandi leikmaður á ferðinni. Miðað við það sem sást með landsliðinu, þá er hann með getu til þess að spila á góðu getustigi - til dæmis á Norðurlöndundum.

Það er auðvitað gott að fá að æfa hjá Real Madrid, en mögulega væri líka bara fínt að breyta aðeins til - fara til dæmis á láni og prófa eitthvað nýtt.

Það er stundum sagt að þú þurfir að taka eitt skref til baka til að taka tvö skref fram á við. Í þessu tilviki telur undirritaður að það þurfi ekki endilega. Að fara úr spænsku C-deildinni í til dæmis dönsku úrvalsdeildina væri ekki skref niður á við, þó umhverfið í spænsku höfuðborginni sé gott.

Sumarið verður áhugavert fyrir þennan efnilega leikmann og klárlega ýmislegt sem hann þarf að skoða.
Athugasemdir
banner
banner
banner