fim 18. febrúar 2021 09:44
Magnús Már Einarsson
Bjarni Guðjóns: Átti ekki von á að tækifærið úti kæmi núna
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bjarni Guðjónsson, aðstoðarþjálfari KR, gerði í gær tveggja ára samning við sænska félagið Norrköping þar sem hann mun þjálfa U19 ára lið félagsins.

„Það hefur blundað í mér mikið að reyna að fá tækifæri til að fara út að þjálfa. Ég átti ekki alveg von á því að það kæmi núna en það er rosalega gaman að það komi núna og ég tala nú ekki um hjá þessu félagi sem hefur sterka tengingu til Íslands. Ég er spenntur og þakklátur fyrir tækifærið," sagði Bjarni við Fótbolta.net í dag.

Verður líka á æfingum aðalliðsins
Jóhannes Kristinn Bjarnason, sonur Bjarna er líklega einnig á leið til Norrköping en Bjarni getur ekki tjáð sig um hans mál þar sem ekki er búið að ganga frá öllum formsatriðum. Fyrir hjá félaginu eru Ísak Bergmann Jóhannesson, Finnur Tómas Pálmason og Oliver Stefánsson.

„Íslensku strákarnir sem hafa farið þarna út eru ekki í U19 ára liðinu. Þeir hafa farið í aðalliðið og reynt hefur verið að keyra þá eins hratt í gegn og kostur er."

„Aðbúnaðurinn í U19 liðinu er sá sami og hjá aðalliðinu og vel að öllu staðið. Þeir æfa ekki á sama tíma og aðalliðið þannig að stefnan er að ég verði stuðningur við ungu strákana þar. Ég geri ráð fyrir því að vera inni á öllum æfingum hjá aðalliðinu líka."


Bjarni varð tvívegis Íslandsmeistari og þrisvar bikarmeistari sem leikmaður KR. Hann var einnig aðstoðarþjálfari liðsins þegar það varð Íslandsmeistari árið 2019.

„Það er mjög erfitt að yfirgefa KR. Þetta hefur verið mjög skemmtilegur tími. Auðvitað hefur þetta verið krefjandi stundum en það gerir þetta skemmtilegt. Verðlaunin eru síðan góð þegar vel gengur. Samstarfið við Rúnar hefur gengið frábærlega og ég var ekki að fara af því að mér leið illa. Það var allt eins og best verður á kosið í okkar samstarfi, hópurinn var skemmtilegur og ég á eftir að sakna þeirra allra."

Vill sjá KR styrkja leikmannahópinn
KR endaði í 5. sæti í Pepsi Max-deildinni í fyrra en Bjarni er bjartsýnn á að liðinu muni ganga vel á komandi tímabili.

„KR með Rúnar Kristinsson á alltaf eftir að standa sig vel. Það er ekki ein einasta spurning. Það er samt spurning hvor það þurfi að styrkja hópinn og fjölga. Við höfum misst leikmenn frá því í fyrra en höfum aðeins bætt við okkur og fengið menn til baka úr meiðslum. Mér sýnist á samkeppninni í kringum okkur að það væri gott fyrir KR að bæta við sig 1-2 leikmönnum," sagði Bjarni að lokum.

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner