Breiðablik vann Shamrock Rovers 2-1 á Kópavogsvelli í kvöld og tryggðu sér þar með í 2. umferð forkeppni Meistaradeildarinnar þar sem liðið mætir FCK.
Jason Daði Svanþórsson kom liðinu yfir í kvöld.
„Þetta er yndisleg tilfinning. Þegar maður leggur mikið á sig er gaman að uppskera en við ætlum okkur ennþá lengra. Það er alltaf ógeðslega gaman að vinna í Evrópu, það er eitthvað extra við það," sagði Jason Daði.
„Ég sá Oliver pikka honum og ég fékk hann. Þá dettur maður í eitthvað flæði og svo setur maður hann í fjær, bara geggjað. Þetta hefði ekki gerst nema hann (Oliver) hefði ekki pikkað í hann þannig hann fær sitt kredit," sagði Jason.
Hann hefði viljað skora fleiri mörk í kvöld.
„Að sjálfsögðu, ég verð að gera betur. Við hefðum getað klárað leikinn mun fyrr ef ég hefði klárað þessi færi. Ég verð að sjá hvað ég gerði vitlaust í þeim færum og gera betur næst."
Mosfellingurinn Jason Daði vonast til að sjá aðra Mosfellinga eins og faðir hans Svanþór fasteignasala og Steinda Jr. á Parken.
„Já, þeir láta sig ekki vanta," sagði Jason að lokum.