Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   sun 19. júní 2022 21:17
Brynjar Ingi Erluson
Mætti fullur á æfingar hjá Real Madrid
Cicinho
Cicinho
Mynd: Getty Images
Cicinho, fyrrum leikmaður Real Madrid á Spáni, segir frá því er hann mætti fullur á æfingar liðsins en hann hefur talað opinskátt um baráttu sína við áfengisvandamál síðustu ár.

Brasilíumaðurinn kom til Real Madrid árið 2006 frá Sao Paulo og þótti einn mest spennandi hægri bakvörður heims á þeim tíma en hann meiddist illa í byrjun leiktíðar og missti mikið úr.

Hann drakk heiftarlega á Spáni og mætti jafnvel fullur á æfingar en hann segir frá þessu í viðtali í sjónvarpsþættinum Ressaca á EPTV.

Drykkjan hélt áfram hjá Roma og missti hann traustið frá liðsfélögunum eftir að þeir sáu hann í annarlegu ástandi.

„Ef þú spyrð mig hvort ég hafi mætt fullur á æfingar hjá Real Madrid þá svara ég því játandi. Ég drakk kaffi til að eyða lyktinni og baðaði mig í rakspíra."

„Þetta var frekar auðvelt, svona ef ég tala sem fyrrum atvinnumaður í knattspyrnu. Ég þurfti ekki pening til að drekka þvi fólk var tilbúið að gefa manni hvað sem er á veitingastöðunum."

„Ég byrjaði að drekka eftir æfingar. Ég fór í endurhæfingu, kom heim um tvö og hætti ekki að drekka fyrr en fjögur um morguninn."

„Í hvert einasta sinn sem ég mætti fullur á æfingar hjá Roma þá sáu leiðtogarnir það og ég missti traustið,"
sagði hann ennfremur.

Cicinho spilaði 15 landsleiki fyrir Brasilíu og skoraði 1 mark en hann lagði skóna á hilluna fyrir fjórum árum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner