
Kvennalandsliðsþjálfarinn Þorsteinn Halldórsson var spurður út í valið á Auði Sveinbjörnsdóttur Scheving í hlaðvarpsviðtali í gær.
Auður var valin í tvö landsliðsverkefni á síðasta ári. Hún er nítján ára markvörður sem á að baki 21 leik fyrir yngri landsliðin og tvö tímabil með ÍBV í efstu deild en hún er uppalin og samningsbundin Val.
Hún hefur glímt við meiðsli að undanförnu og ekkert spilað síðan í september á síðasta ári.
Þorsteinn er stjúpfaðir Auðar og var hann spurður út í það hvort það hefði, vegna tengslanna þeirra á milli, verið erfitt eða flókið að velja hana í landsliðið.
„Af því hún er tengd mér? Ekki nokkurn skapaðan hlut," sagði Steini.
„Ég valdi hóp fyrir verkefni sem var ekki farið í snemma á síðasta ári. Hún var valin í þann hóp. Fyrir mér... Ísland er lítið land, tengsl hér og þar. Pabbi Telmu [Ívarsdóttur] er æskuvinur minn. Þetta er bara litla Ísland, ég ætla ekki refsa henni fyrir það að ég sé að sofa hjá mömmu hennar," sagði Steini léttur.
Athugasemdir