Markvörðurinn Gabriel Slonina er mættur aftur til Chelsea eftir að hafa eytt síðustu mánuðum á láni hjá Barnsley.
Slonina er tvítugur Bandaríkjamaður sem gekk í raðir Chelsea fyrir þremur árum.
Árið 2023 var hann á lista yfir 50 efnilegustu leikmenn heims en hlutirnir hafa ekki alveg gengið upp hjá honum síðustu ár.
Hann eyddi tímabilinu 2023-2024 á láni hjá belgíska liðinu Eupen sem féll niður í B-deildina og var síðan lánaður til enska C-deildarliðsins Barnsley fyrir þetta tímabil.
Markvörðurinn hefur ekkert getað spilað síðustu tvo mánuði vegna meiðsla og hefur hann því verið sendur aftur til Chelsea.
Slonina á einn A-landsleik með Bandaríkjunum en óvíst er hvað hann mun gera seinni hluta tímabils. Ekki er pláss fyrir hann í leikmannahópi Chelsea og því líklegast í stöðunni að hann fari aftur á lán.
Athugasemdir