Í allri þeirri umræðu sem er í gangi varðandi málefni KSÍ hefur landsliðsnefnd KSÍ afskaplega lítið verið í umræðunni. Stefán Pálsson, fótboltaáhugamaður og sagnfræðingur minnist á þetta í færslu á Twitter.
„Vissulega ekki aðalatriði í þessu máli - en rosalega er skipurit KSÍ skrítið. Sautján manna stjórn (samt hvorki gjaldkeri né ritari). Slíkt ferlíki getur tæpast komið að daglegum rekstri. En svo er landsliðsnefnd fyrir karlaliðið sem á að sinna því, en enginn nefnir hana á nafn," skrifar Stefán.
Landsliðsnefndin kom reyndar aðeins við sögu í nýjasta Innkastinu hér á Fótbolta.net sem kom út í dag.
„Það hlýtur að fylgja þokkaleg ábyrgð að vera formaður landsliðsnefndarinnar því þetta mál tengist allt landsliðinu og landsliðsmönnum," sagði Elvar Geir Magnússon.
Magnús Gylfason er formaður landsliðsnefndarinnar en hann situr einnig í stjórn KSÍ. Ásgeir Ásgeirsson, Birkir Kristinsson og Haraldur Haraldsson sitja einnig í nefndinni.
Guðni Bergsson lét af störfum sem formaður KSÍ í gær en háværar raddir eru um að það þurfi að hreinsa enn frekar til hjá sambandinu og fleiri eigi að víkja.
Athugasemdir