Mbeumo, Wirtz, Diomande, Quenda, Nypan, Van Nistelrooy, Cherki og fleiri góðir í slúðri dagsins
   mið 13. nóvember 2024 17:03
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Þess vegna taldi ég réttast að setja punktinn hér"
'Ég verð ávallt stoltur að fá að vera partur af þeirri fjölskyldu'
'Ég verð ávallt stoltur að fá að vera partur af þeirri fjölskyldu'
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Lék alls 111 leiki fyrir Leikni. Leikirnir hefðu orðið fleiri ef meiðsli hefðu ekki sett stórt strik í reikninginn.
Lék alls 111 leiki fyrir Leikni. Leikirnir hefðu orðið fleiri ef meiðsli hefðu ekki sett stórt strik í reikninginn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með Leikni 2013.
Í leik með Leikni 2013.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lék 24 leiki fyrir yngri landsliðin.
Lék 24 leiki fyrir yngri landsliðin.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aðstoðaði Óla Hrannar og Nemanja Pjevic í sumar.
Aðstoðaði Óla Hrannar og Nemanja Pjevic í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Ósvald Jarl Traustason hefur lagt skóna á hilluna einungis 29 ára gamall, hann gerir það vegna þrálátra meiðsla. Leiknir tilkynnti að Ósi, eins og hann er alltaf kallaður, væri hættur með færslu á samfélagsmiðlum í gær.

Fótbolti.net ræddi svo við bakvörðinn í dag.

„Þetta var erfið ákvörðun sem ég tek að vel ígrunduðu máli, en ég held að það megi segja með nokkurri vissu að fæstir taka skyndiákvarðanir í svona tilfellum. Ég meiddist illa í byrjun síðasta tímabils og missti eiginlega af því öllu. Rúmum fimm mánuðum síðar er ég enn að vinna mig í gegnum meiðslin og er ekki enn búinn að jafna mig á þeim í dag," segir Ósi.

Áfram í Leikni eða láta þetta gott heita
Hann var spurður hvort það hefði ekki komið til greina að halda áfram og spila í neðri deildum Íslandsmótsins.

„Ég er bara þannig gerður, og hef alltaf verið, að ég vil gera hlutina á fullu gasi og sá ekki fram á að geta lagt allt í sölurnar fyrir Leikni áfram. Þess vegna taldi ég réttast að setja punktinn hér og leggja skóna á hilluna. Það kom í raun aldrei til greina að reyna fyrir mér í öðru liði en Leikni. Það var bara Leiknir eða láta þetta gott heita."

„Góðar minningar sem ég mun geyma út lífið"
Hvernig horfirðu til baka yfir ferilinn, hver er hápunkturinn?

„Hápunkturinn á ferlinum er klárlega allur tíminn minn hjá Leikni og þeir yngri landsleikir sem ég spilaði, allt það fólk sem ég kynntist; leikmenn og þjálfarar, stuðningsfólk og sjálfboðaliðar. Það er eitthvað sem mér þykir allra vænst um, enda eignast virkilega góðar minningar úr þeim verkefnum sem ég mun geyma út lífið."

Nefnir sérstaklega fjögur tímabil
Hvaða tímabil er eftirminnilegast?

„Ég á erfitt með að nefna eitthvað eitt ákveðið tímabil. Tímabilið 2017 þegar ég fór með Leikni í undanúrslit í bikarnum var ótrúlega skemmtilegt og lærdómsríkt. Við vorum grátlega nálægt því að fara alla leið í bikarúrslit það ár en Steven Lennon með sinni snilli á 90 mínútu sá til þess að FH fór alla leið á Laugardalsvöll. Vert er þó að nefna að þrátt fyrir að hafa ekki náð að fara alla leið, skrifuðum við söguna, en þetta var í fyrsta skipti sem Leiknir fer í undanúrslit í bikarkeppni."

„Tímabilið 2019 var sömuleiðis afar gott. Við enduðum það tímabil í 3. sæti í Lengjudeildinni, aðeins þremur stigum frá því að fara upp. Ef ég man rétt þá vorum við taplausir í síðustu 11 leikjum tímabilsins, sjö sigrar og fjögur jafntefli.

„Tímabilið 2021, annað árið sem Leiknir spilaði í efstu deild, var líka frábært. Mikill áhugi var fyrir liðinu og stuðningurinn sem við fengum það tímabil var algjörlega upp á 10,5! Það var einstaklega gaman að tryggja veru okkar í deild þeirra bestu með sigri gegn Val þegar sex umferðir voru eftir."

„Svo er það tímabilið 2023. Eftir herfilega byrjun náðum við að rétta úr kútnum á réttum tíma sem skilaði okkur 5. sæti í deildinni og þar með sæti í umspili. Því miður fór það ekki eins og við ætluðum okkur og duttum við út gegn Aftureldingu. "

„Til að taka þetta saman þá er alltaf skemmtilegast þegar vel gengur hvort sem það er hjá liðinu eða manni sjálfum. Best er að svara þessu á þann veg að tímabilin sem eru hvað eftirminnilegust eru þau þar sem ég var 100% heill."


Breiðablik eða Leiknir?
Á ferlinum lék Ósi með Leikni, Fram og Gróttu en hann er uppalinn hjá Breiðabliki.

„Í dag myndi ég klárlega segja að ég sé meiri Leiknismaður en Bliki þó Breiðablik skipi nú alltaf stóran sess í lífi mínu og átti stóran þátt í að móta mig sem leikmann fram til þessa."

„Þegar ég var 17 ára fékk ég fyrst tækifæri til að spila fyrir Leikni og spilaði ég fyrstu alvöru meistaraflokksleikina mína þá. Eftir smá flakk frá 2014 til 2016 samdi ég síðan aftur við Leikni og hef verið þar allar götur síðan. Því er óhætt að segja að Leiknir og klúbburinn í heild sinni mun ávallt eiga stóran stað í hjarta mínu og verð ég ávallt stoltur að fá að vera partur af þeirri fjölskyldu."


Fékk smjörþefinn af þjálfun í sumar
Hefurðu eitthvað hugsað út í þjálfun eða aðra vinnu tengda fótboltanum í framtíðinni?

„Þetta er mjög góð spurning. Ég fékk svo sannarlega smjörþefinn af því að vera þjálfari í sumar þegar Óli og Nemmi tóku mig inn í þjálfarateymi Leiknis eftir að ég meiddist og allt benti til þess að ég væri ekki að fara spila meira á tímabilinu. Ég er þakklátur þeim fyrir það og lærði ég heilmikið."

„Þannig maður veit aldrei hvað gerist. Þetta er allavega klárlega eitthvað sem ég hef áhuga á í framtíðinni,"
segir Ósi.
Athugasemdir
banner
banner
banner