Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   fös 30. desember 2022 22:03
Brynjar Ingi Erluson
England: Sjálfsmarkatvenna Faes skilaði Liverpool sigri
Wout Faes reyndi að hreinsa í fyrra markinu en úr varð stórkostlegt mark
Wout Faes reyndi að hreinsa í fyrra markinu en úr varð stórkostlegt mark
Mynd: Getty Images
Darwin Nunez átti ágætis leik í liði Liverpool
Darwin Nunez átti ágætis leik í liði Liverpool
Mynd: Getty Images
Liverpool 2 - 1 Leicester City
0-1 Kiernan Dewsbury-Hall ('4 )
1-1 Wout Faes ('38 , sjálfsmark)
1-1 Wout Faes ('45 , sjálfsmark)

Liverpool vann ósannfærandi, 2-1, sigur á Leicester í 18. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Anfield í kvöld en heimamenn geta þakkað belgíska varnarmanninum Wout Faes fyrir stigin þrjú.

Heimamenn byrjuðu leikinn eins og svo marga aðra á þessu tímabili með að fá á sig mark. Kiernan Dewsbury-Hall spólaði sig í gegnum sofandi vörn Liverpool á 4. mínútu og lagði boltann framhjá Alisson í markinu.

Mohamed Salah fékk ágætis tækifæri til að jafna á 23. mínútu eftir góðan undirbúning frá Darwin Nunez en skot hans fór framhjá. Salah kom boltanum í netið nokkrum mínútum síðar. Danny Ward hreinsaði boltann í átt að Salah sem stangaði hann á Alex Oxlade-Chamberlain. Englendingurinn fann Salah strax í lappir áður en hann kláraði færið vel, en markið dæmt af vegna rangstöðu á Oxlade-Chamberlain í aðdragandanum.

Liverpool þurfti hjálp til að komast aftur inn í leikinn og kom sú hjálp úr óvæntri átt. Wout Faes, miðvörður Leicester, kom boltanum í eigið net á 38. mínútu eftir fyrirgjöf Trent Alexander-Arnold.

Fyrirgjöfin var ekkert sérstök en það var hreinsun Faes sem vakti athygli. Hann sparkaði boltanum hátt yfir Ward og í samskeytin — stórkostlegt mark.

Undir lok fyrri hálfleiks var Faes aftur á ferðinni. Darwin Nunez slapp í gegn vinstra megin og kom boltanum framhjá Ward, en boltinn í stöng. Faes bjóst alls ekki við því að boltinn myndi hafna í stönginni og fór það svo að hann skoppaði af Faes og í netið.

Færin voru á báða bóga í þeim síðari. Salah hefur alveg átt betri daga fyrir framan markið og var fremur ólíkur sjálfum sér og átti í stökustu vandræðum með að hitta boltann á markið.

Þegar tuttugu mínútur voru eftir varði Ward svo meistaralega er Salah kom boltanum loks á markið en Walesverjinn sá við honum.

Liverpool tókst að halda út og landa mikilvægum sigri. Mjög svo ósannfærandi hjá heimamönnum en þrjú stig engu að síður og lokatölur því 2-1. Liverpool er í 6. sæti með 28 stig en Leicester í 13. sæti með 17 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner