Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fös 30. desember 2022 09:29
Hafliði Breiðfjörð
Heimild: Vefur Þórs 
Haraldur Ingólfsson er íþróttaeldhugi ársins
Haraldur Ingólfsson.
Haraldur Ingólfsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Íþrótta- og ólympíusamband Ísland valdi í fyrsta sinn íþróttaeldhuga ársins og útnefndi hann á hófi Íþróttamanns ársins. Um er að ræða verðlaun sem veitt verða árlega hér eftir og falla til sjálfboðaliða í íþróttastarfi.


Sá fyrsti sem hlýtur nafnbótina er Haraldur Ingólfsson, sem unnið hefur gríðarlegt sjálfboðastarf undanfarin ár fyrir íþróttafélagið Þór og kvennalið Þórs/KA í fótbolta.

ÍSÍ ákvað að stofna til þessara verðlauna í ljósi þess hve gríðarlega miklu máli sjálfboðaliðar skipta í íþróttahreyfingunni og til þess að vekja athygli á mikilvægu starfi þeirra.

Lárus Blöndal forseti ÍSÍ afhenti Haraldi verðlaunin í Hörpu í gærkvöldi áður en tilkynnt var um lið ársins, þjálfara ársins og íþróttamann ársins.

Alls voru 175 manns tilnefndir af íþróttahreyfingunni og almenningi til verðlaunanna íþróttaeldhugi ársins. Skipuð var valnefnd sem valdi úr þessum stóra hópi þrjá sjálfboðaliða sem komu til greina en það voru auk Haraldar, Friðrik Þór Óskarsson sem hefur starfað fyrir ÍR og Frjálsíþróttasambandið og Þóra Guðrún Gunnarsdóttir, sem starfað hefur fyrir Björninn, SR og Skautasambandið.

Valnefnd ÍSÍ var skipuð valinkunnum íþróttakempum, þeim Þóreyju Eddu Elísdóttur formanni, Kristínu Rós Hákonardóttur, Margréti Láru Viðarsdóttur, Bjarna Friðrikssyni og Degi Sigurðssyni.


Athugasemdir
banner
banner
banner