Í október síðastliðnum bárust þau leiðinlegu tíðindi að Enock Mwepu, þá leikmaður Brighton, neyddist til að hætta í fótbolta vegna hjartavandamála.
Greining leiddi það í ljós að vandamálið gæti versnað með tímanum og sett líf hans í hættu ef hann héldi áfram að spila.
Mwepu gekk í raðir Brighton í júlí 2021 en hann hafði spilað í Austurríki fyrir FC Liefering og Red Bull Salzburg. Hann spilaði 27 leiki fyrir Brighton og skoraði þrjú mörk, þar á meðal gegn Liverpool á Anfield og Arsenal á Emirates.
Mwepu, sem er bara 24 ára, hefur núna snúið aftur til Brighton en í öðru hlutverki.
Á nýju ári mun hann taka að sér þjálfun drengjaliðs í akademíu félagsins; hann mun þjálfa stráka sem eru níu ára og yngri.
Athugasemdir